Samstöðufundur með Palestínu var haldinn á Egilsstöðum í dag.
Þó nokkur fjöldi mætti á samstöðufund með Palestínu við Tehúsið á Egilsstöðum en í byrjun safnaðist fólk saman við Egilsstaðakirkju og gengu svo í gegnum bæinn og námu staðar hjá Tehúsinu, þar sem fundurinn fór fram, líkt og áður segir.
Árni Friðriksson var fundarstjóri en auk hans hélt Sigurlaug Björnsdóttir Blöndal ræðu á fundinum og tónlistarmennirnir Máni og Öysteinn Gjerde tóku lagið.
Kröfur fundarins voru eftirfarandi:
Fundurinn skorar á íslensk stjórnvöld að stíga fast niður fæti á móti ógnarstjórn Benjamíns Netanjahús og geri skýlausa kröfu um Vopnahlé strax!
Fundurinn krefst þess að íslensk stjórnvöld nái strax í þá einstaklinga sem enn hefur ekki verið bjargað frá Gaza og hafa nú þegar fengið dvalarleyfi hér á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Fundurinn tekur undir áskorun Amnesty til Katrínar Jakobsdóttur um að tryggja að ákvörðun um að frysta greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar verði snúið við hið snarasta.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr ræðu Árna:
„Árið 1973 var gefin út bók eftir bandaríska rithöfundinn, Ursulu Le Guin, sem innhélt meðal annars smásöguna The Ones who Walk Away from Omelas, eða „Þau sem yfirgefa Omelas“ sem er sennilega hennar þekktasta smásaga. Sagan fjallar um borgina Omelas þar sem öll eru hamingjusöm, öll lifa sældarlífi, öll njóta allra lífsins lystisemda, þ.e. öll nema eitt barn. Vegna þess að til þess að viðhalda þessu útópíska sældarlífi þarf að geyma eitt barnanna niðri í kjallara þar sem það hýrist klæðalítið í eigin skít og stöku sinnum birtast menn sem sparka í það á meðan fyllt er á matar og vatnsdallinn. Þegar hamingjusömu börnin í Omelas eru orðin nógu stór er þeim sagt frá barninu og farið í skoðunarferð niður í kjallara og ég ætla að þýða hérna nokkrar línur úr sögunni: „Það er alveg sama hversu vel málið hefur verið útskýrt fyrir þeim, þessir ungu áhorfendur verða alltaf fyrir áfalli og finna fyrir ógleði við þessa sýn. Þau finna fyrir viðurstyggð, sem þau héldu sig hafin yfir. Þau finna fyrir reiði, hneykslan, vanmætti, þrátt fyrir allar útskýringarnar. Þau vilja gera eitthvað fyrir barnið. En það er ekkert sem þau geta gert.“
Það er hægt að túlka þessa sögu á marga vegu, en í dag fjallar hún í mínum huga um þjóðarmorðið í Palestínu. Barnið í kjallaranum er Gaza-svæðið. Hamingjusama fólkið sem getur því miður ekkert gert er restin af heiminum. Og því miður trónir Evrópa þar á toppnum. Og það er með öllu óskiljanlegt hvernig Evrópa, í skugga Bandaríkjanna, leyfa þessum hörmungum að viðgangast.
En sagan heitir “Þau sem yfirgefa Omelas”, það eru þau sem geta ekki sætt sig við þjáningu annarra, jafnvel þó að lífið sé að mörgu leyti gleði og dásemd. Það eru hetjur eins og íslensku sjálfboðaliðarnir, konurnar sem eru búnar að bjarga og eru enn að bjarga Palestínufólki á meðan ríkisstjórn okkar gerir ekkert nema í mesta lagi vinnur að því að herða komutakmarkanir flóttafólk og auka á útlendingaandúð í boði utanríkisráðherra. Svo er það fólk eins og við sem að minnsta kosti sýnum að okkur er ekki sama. Við sættum okkur ekki við aðgerðarleysi stjórnvalda á meðan að barnamorð og þjóðarmorð eru framin í beinni útsendingu. Og við sættum okkur ekki við að að sveitarfélagið Múlaþing taki þátt í þessari útlendingaandúð með því að samþykkja nýjar fánaleiðbeiningar gagngert til að losna við Palestínska fánann af fánastöng félagsheimilisins Herðubreiðar á Seyðisfirði. Við kjósum að yfirgefa Omelas. Ég á vini sem hafa sagt: „Við getum ekkert gert.“ En það er svo margt sem við getum gert. Við getum með samstöðufundum eins og þessum mótmælt yfirstandandi ástandi, mótmælt andvaraleysi stjórnvalda og sýnt að okkur er ekki sama.“