Gríðarlegar breytingar hafa orðið á umhverfinu í kringum Stóra-Skógfell eftir eldgosið úr Sundhnúkagíg. Stór hluti gönguleiðarinnar frá Gíghæð að fjallinu er kominn undir hraun. Fjallið er nú umvafið hrauni á þrjá vegu. Sá sem ætlar sér að ganga á fjallið þarf að krækja fyrir hrauntungu sem teygir sig allt að kílómetra norður að Litla-Skógfelli. Fjallið liggur nú inni í tungu sem er umvafin hrauni.
Breytingarnar sem hafa orðið við seinasta gos eru sláandi. Mannlíf lagði leið sína að hraunjaðrinum og norður með honum. Hraunbreiðan er áminning um þau ósköpin öll sem gengu á þegar gaus í janúar.
Gönguleiðin frá Gíghæð að Stóra-Skógfelli hefur notið vinsælda. Dæmi eru um að gengið hafi verið upp á Stóra-Skógfell og þaðan sem leið liggur meðfram Sundhnúkagígum og inn í Grindavík. Þessi leið er nánast öll undiir hrauni. Jarðvísindamenn spá því að enn muni gjósa á þessum slóðum í vikunni.