„Hver var karlmaðurinn, sem grýtti bíl Diljáar Mistar 12. febrúar við Alþingishúsið og hreytti í hana ókvæðisorðum? Veit einhver, hver þetta var?“ Þannig hljómar Facebook-færsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
Eins og fram hefur komið í fréttum, var snjóbolta kastað í bíl Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og hreytti í hana ókvæðisorðum. Eftir „árásina“ var Diljá í hálfgerðu áfalli og hafði orð á því að stuttu áður hefði dóttir hennar verið í bílnum. Og nú vill Hannes Hólmsteinn Gissurarson fá að vita hver maðurinn sem kastaði snjóboltanum, er.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og innmúraður Sjálfstæðismaður, segir ástæðuna fyrir því að hann sé að leita að manninum sé sú að hann sé að vinna í ritgerð um atvikið. „Ég spyr, af því að ég er að skrifa ritgerð um þetta mál. Mér finnst rétt að segja frá öllu, sem máli skiptir,“ skrifaði Hannes.
Mannlíf spurði Hannes fyrir hvern hann væri að gera ritgerðina og hvort hann fengi greitt fyrir hana. Í skriflegu svari sínu skólaði Hannes blaðamann Mannlífs, sem hafði ekki vitneskju um störf prófessorsins við pistlaskrif fyrir The Consevative. „Þú virðist ekki vita, að ég er fastur dálkahöfundur á The Conservative. Þessi ritgerð mun birtast þar. Hvers konar þvæluspurningar eru þetta?“ Bætti Hannes um betur og bætti við: „Ég set hverja einustu grein í The Conservative inn á Facebook síðuna mína, svo að það fer ekki fram hjá neinum nema örlaga-aulum.“