„Þvílíkur hryllingur sem þetta blóðmerahald er. Já ég var að horfa á umfjöllun Kveiks um málið, og þá afhjúpun yfirhylminga og dýraníðs sem þar kom fram. Það er skömm fyrir okkur Íslendinga að láta þetta viðgangast.“ Þannig hefst færsla Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur en hún, líkt og margir landsmenn, horfði á þátt Kveiks á RÚV í gærkvöldi þar sem fjallað var um „blóði drifinn milljónabransa“ blóðmerahalds á Íslandi.
Ólína segir í færslunni að offramleiðsla á hrossum sé stunduð hér á landi og veltir fyrir sér hvort hægt sé að selja hrossin sem reiðhross eða til útflutnings. „Einn bóndinn sagði að hinn kosturinn væri að skjóta 5000 hryssur. Ég fæ þó ekki séð að það sé óhjákvæmilegt. Einhver hluti færi að líkindum í kjötframleiðslu, en drjúgan hluta mætti selja ýmist sem reiðhross eða til útflutnings. Gleymum því ekki að þessar hryssur eru fyljaðar æ ofan í æ til þess að viðhalda hormónamagninu í þeim. Hvað verður um folöldin? Þeim er yfirleitt lógað. Þannig er búin til offramleiðsla hrossa til að standa undir blóðtökutekjunum, og umfram magninu þ.e. folöldunum er lógað.“
Og Ólína vill banna þetta, líkt og svo fjölmargir.
Það á að banna þetta.“