Livio Ísland, fyrsti formlegi eggja- og sæðisbankinn á Íslandi verður opnaður síðar í þessum mánuði. Markmiðið bankans er að auka möguleika barnlausra para og einstaklinga á að eignast barn og stytta biðina eftir gjafaeggi eða -sæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá læknastofunni Livio.
Livio Ísland er hluti af Livio sem er stærsta norræna samsteypan innan tæknifrjóvgunarmeðferða. Livio starfar á Íslandi, Svíþjóð og í Noregi. Í janúar 2019 stofnaði Livio eigin eggja- og sæðisbanka í Svíþjóð og nú er komið að Íslandi.
Í tilkynningu Livio segir að eftirspurn eftir eggjum og sæði hefur alltaf verið mun meiri en framboð og því hefur biðin hjá þeim sem þrá barn en þurfa á gjöf kynfrumna að halda verið löng.
„Það er mikill skortur á gjöfum og því þurfa margir sjúklingar okkar að leita erlendis eftir meðferð, með auknum kostnaði og óöryggi. Slíkar meðferðir væri hægt að veita af öryggi og af háum gæðum á Íslandi. Markmið okkar er einnig að breyta viðhorfi fólks til eggja- og sæðisgjafa,“ er haft eftir Monu Bungum, lækni og forstjóra Livio Egg and Sperm bank.
Eggja- og sæðisbanki Livio Ísland verður staðsettur hjá Livio Reykjavík í Glæsibæ.