Þorvaldur Þórðarson var spurður af fréttamanni Stöðvar 2 hvaða skoðun hann hafi á að fólk sé að gista í Grindavík:
„Ég held að það væri mjög sniðugt hjá okkur að nota þetta litavarnarkerfi sem við erum með. Núna erum við að nálgast gos og þá er kannski óskynsamlegt að sofa í Grindavík og vera í Bláa lóninu. Öryggisins vegna að sleppa því núna.“
„Það er auðvelt svo að fara aftur til baka þegar gosið er búið og taka upp fyrri iðju,“ bætir hann við.
Þorvaldur hafði spáð að gjósa myndi 1. mars en reiknar nú með að það gjósi eftir helgi:
„Ég er ansi hræddur um að spáin muni ekki rætast í þetta skiptið. Ég held við munum fá gosið eitthvað seinna, kannski á næstu tveimur-þremur dögum.“
„Landrisið virðist aðeins farið að hægja á sér, skjálftavirknin er svipuð og hún hefur verið, kannski smá aukning á henni,“ sagði hann.
Jafnframt telur hann líkur á að gosið muni hegða sér á svipaðan hátt og fyrri gos. Kröftugt í upphafi en fljótt detta niður.
Veðurstofan vakir yfir mælum og myndum
Sérfræðingar Veðurstofu vakta svæðið dægurlangt og segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi:
„Við erum búin að bíða í allan dag eftir að eitthvað gerist. Þetta gæti gerst með skömmum fyrirvara og við erum svolítið mikið á tánum.“
Sigríður segir tilfinninguna sem fylgi starfi sínu þessa dagana öðruvísi en ella er svo margt sé undir. Vegi þá mest að margt fólk er á svæðinu bæði í Grindarvíkurbæ sem og í Bláa lóninu.