Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Tugmilljóna undirfjármögnun 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Krabbameinsfélagið hefur í mörg ár búið við skammtímasamninga við ríkið um krabbameinsskimunina, sem hefur verið undirfjármögnuð og kallað á tugmilljóna útgjöld af hálfu félagsins til að brúa bilið.

Að sögn Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, var félaginu tilkynnt vorið 2017 að til stæði að semja til lengri tíma en áður, til þriggja eða fimm ára, en síðan var tekin u-beygja og ákveðið að skoða að færa verkefnin annað. Halla segist telja þá ákvörðun fyrst og fremst pólitíska en segir Krabbameinsfélagið hins vegar alls ekki á móti því að skimunin færist annað.

„Félagið hefur sett á stofn alls konar verkefni sem ekki voru áður til staðar en sem hafa síðan sannað gildi sitt og orðið hluti af sjálfsagðri opinberri þjónustu,“ útskýrir hún og nefnir sem dæmi íbúðir fyrir krabbameinssjúka af landsbyggðinni og líknarþjónustu í heimahúsum. Hún segir verkefni félagsins mörg og áskoranirnar sömuleiðis. Starf félagsins standi hvorki né falli með hópleitinni. Raunar muni létta á Krabbameinsfélaginu að því leyti að það muni ekki lengur þurfa að leggja fjármagn í þjónustuna.

„Ég hef ekki heyrt að það séu hagræðingarsjónarmið sem ráða för. Ég hef ekki heyrt nein rök sem hníga að því að þjónustan verði betri. Og ég hef ekki heldur heyrt neinn rökstuðning fyrir því að ætla megi að árangurinn verði meiri.“

Félagið sé hins vegar uggandi yfir því hvernig staðið sé að málum.

„Við lögðum fram ákveðna hugmynd þar sem við lögðum áherslu á að starfseminni yrði ekki skipt upp, að hún yrði áfram ein heild, þ.e.a.s. stýringin, skipulagið og skimunin sjálf; að það yrði komið á skimunarmiðstöð,“ segir Halla. Stærð þjóðarinnar gerði það að verkum að samlegðaráhrifin af því að hafa allt á sama stað væru veruleg, bæði varðandi kostnað og sérfræðiþekkinguna. Hún segist ekki hafa heyrt neinn rökstuðning fyrir því að verkefninu yrði betur fyrir komið þegar það færðist til spítalanna og heilsugæslunnar; Krabbameinsfélagið hefði aldrei sætt gagnrýni fyrir fyrirkomulag hópleitarinnar og þá hefðu kannanir leitt í ljós að konur væru almennt mjög ánægðar með þjónustuna.

Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

„Ég hef ekki heyrt að það séu hagræðingarsjónarmið sem ráða för. Ég hef ekki heyrt nein rök sem hníga að því að þjónustan verði betri. Og ég hef ekki heldur heyrt neinn rökstuðning fyrir því að ætla megi að árangurinn verði meiri,“ segir Halla. „Krabbameinsfélagið er alls ekki að setja sig upp á móti því að þetta verkefni færist til,“ ítrekar hún. „En við teljum mesta vitið ef það á að færa starfsemina að hún sé þá tekin héðan og flutt í heild sinni. Og við höfum verið að leggja áherslu á að þetta er flókið verkefni; miklu flóknara en að mynda brjóst og taka strok. Það eru alls konar þættir sem þurfa að vera í lagi og það er örugglega hægt að koma þeim þannig fyrir. En það kostar tíma og undirbúning og heilmiklar peninga að útbúa þau kerfi sem þurfa að vera til staðar til að þetta gangi. Og ég hef ekki séð neina kostnaðargreiningu, hvorki í sambandi við undirbúninginn né hvernig þetta verður fjármagnað á hverjum stað til framtíðar,“ segir Halla, sem á þó sæti í áðurnefndri verkefnastjórn.

- Auglýsing -

„Við höfum ákveðnar áhyggjur af því að þegar þetta verkefni er komið inn á stofnanir sem fyrir eiga fullt í fangi með að sinna sínum verkefnum, þá muni skimunin ekki verða í forgangi, ekki síst ef fjármögnun stjórnvalda er ekki nægileg, líkt og verið hefur. Ég vona sannarlega að verkefnið verði fjármagnað til fulls, það er forsenda þess að vel takist til, en á sama tíma væri líka merkilegt ef hægt væri að finna meira fjármagn til verkefnisins allt í einu.“

Landlæknir deilir áhyggjum af álagi

„Ég deili áhyggjum af því að starfsfólk Landspítalans hefur auðvitað mikið að gera; ég get alveg tekið undir þær áhyggjur,“ segir Alma D. Möller landlæknir, spurð að því hvernig henni hugnast það fyrirkomulag sem heilbrigðisráðherra hefur boðað. Hún segist hins vegar leggja mikla áherslu á að flutningur hópleitarinnar verði unninn í samvinnu og samráði við Krabbameinsfélagið og starfsfólk þess.

- Auglýsing -
Alma D. Möller landlæknir.

Meira en tíu ár eru liðin frá því að Alþingi fól heilbrigðisráðherra og landlækni að hefja undirbúning að hópleit að ristil- og endaþarmskrabbameinum sem átti að hefjast í júlí 2007. Síðan hefur vinna að verkefninu staðið yfir með hléum. Sú spurning vaknar hvernig hún standi í dag.

„Af hverju ætti að fara í svona breytingar ef það á ekki að fjármagna þær?“

Alma segir þrjá faghópa hafa verið skipaða um fyrirkomulag skimana; einn fyrir brjóstaskimanir, annan fyrir leghálsskimanir og þann þriðja fyrir ristil- og endaþarmsskimanir. Það sé á þeirra borði að skila tillögum um tilhögun skimunar, t.d. aðferðum og tíðni, og heilbrigðisráðuneytið bíði niðurstaða þeirrar vinnu. „Þetta er búið að taka lengri tíma en reiknað var með en skimunarráð mun fara yfir þessar tillögur og skila til mín og ég mun svo skila ráðleggingum til ráðuneytisins.“

Alma segist vonast til að það verði um miðjan febrúar en áður mun hún sækja skimunarráðstefnu á vegum Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og sjá hvað fram kemur þar.

En hvað með fjármögnunina? Hefur hún trú á því að skimunin verði fullfjármögnuð á nýjum stað?

„Ég get ekki ímyndað mér annað,“ svarar hún. „Af hverju ætti að fara í svona breytingar ef það á ekki að fjármagna þær?“

Mannlíf leitaði til heilbrigðisráðuneytisins og óskaði eftir upplýsingum en fékk aðeins þau svör að mál myndu skýrast þegar verkefnastjórnin hefði skilað af sér.

Lestu meira um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -