Góð vika – Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson svífur vafalaust um á bleiku skýi enda nýr útvarpsstjóri. Eftir eitt leynilegasta ráðningarferli sem sögur fara af („not!“) kunngjörði stjórn Ríkisútvarpsins valið í vikunni og dró ekki dul á að það hefði verið erfitt en frumkvöðlastarf Stefáns á sviði upplýsingagjafar lögreglu um sjálfa sig á samfélagsmiðlum hefði verið eitt af því sem réði því að hann fékk stöðuna. Skiptar skoðanir eru á ráðningunni og sagði Páll Baldvinsson rithöfundur Stefán hafa eitt sér til ágætis. Hann hefði aldrei nálægt fjölmiðlum komið nema sem viðmælandi, aldrei unnið á fréttamiðli, aldrei komið nálægt dagskrárgerð, hvorki fyrir hljóðvarp né sjónvarp, aldrei skipulagt dagskrá eða stýrt henni. „Hann er því alveg óreyndur til þessa starfs, en gangi honum vel því verkefnið er stórt og flókið.“ Reyndar er ekki alfarið rétt að Stefán hafi ekki starfað við fjölmiðla, því hann vann m.a. sem sumarafleysingamaður á Mogganum þegar hann var í lögfræðinámi og sú dýrmæta reynsla á vafalaust eftir að koma að góðum notum í nýja djobbinu.
Slæm vika – Mannanafnanefnd
Meðlimir mannanafnanefndar hafa ekki átt sjö dagana sæla eftir að upp komst að nefndin hafnaði beiðni foreldra um að fá að nefna barn sitt Lúsifer. Fannst sumum heldur betur skjóta skökku við að þessu fallega nafni, með sínar Biblíulegu skírskotanir, væri hafnað á sama tíma og nefndin samþykkti River, Ull og Haföldu eins og ekkert sé. Í kjölfarið hefur nefndin verið sökuð um geðþóttaákvörðun og margir sem hreinlega furða sig á því, eins og svo oft áður, hvers vegna þurfi yfir höfuð að halda úti svona púkalegu batteríi. Fólk eigi að fá að ráða sínum nöfnum sjálft og barnanna sinna, ekki eitthvert rykfallið apparat sem starfi eftir málsfarsreglum sem hafi lítið breyst frá miðöldum. Einhverjir hafa þó stigið fram og gripið til varna fyrir nefndina með ekki ósvipuðum rökum og í lagatexta Memfísmafíunnar sem söng um árið: „Það verður að vera stjórn á mannanöfnum — annars myndu allir bara heita Hitler.“ Og hvert værum við komin þá, spyr þetta góða fólk. Já, það er spurning.