Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fjárkúgurum sem beita hefndarklámi.
Síðasta sumar fjallaði Mannlíf um aukningu í fjárkúgunarmálum á Íslandi þar sem glæpamenn beittu hefndarklámi til að kúga fé úr fórnarlömbum sínu, oftast grunlausum karlmönnum. Í dag varar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við slíkum glæpum, sem hún kallar sæmdarkúgun.
Sjá einnig: Hefndarklámskúganir herja á einhleypa Íslendinga: „Fór í full on panic mode. Ofandaði og allt“
„Fjárkúganir taka á sig ýmsar myndir, en ein þeirra er sæmdarkúgun (sextortions) en slík mál eru nú til rannsóknar hjá embættinu.“ Þannig hefst tilkynning lögreglunnar á Facebook. Og heldur svo áfram: „Þolendur eru gjarnan ungir karlar, jafnvel á grunnskólaaldri, sem eru ginntir til að senda af sér kynferðislegar myndir í gegnum samfélagsmiðla, einkum Instagram og Snapchat. Viðtakandinn reynist síðan ekki vera sá sem hann segist vera og krefst peninga, ella verði myndunum dreift áfram til annarra.“
Þetta segir lögreglan vera skipulagða brotastarfsemi og því sé „full ástæða til að hafa varann á sér.“ Þá segir hún að nauðsynlegt sé að foreldrar og forráðamenn ræði við börnin sín um þessi mál.