Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hópleitin flytur en mörgum spurningum ósvarað

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra mun skimun eftir krabbameinum flytjast frá Krabbameinsfélaginu og á hendur opinberra aðila um áramótin. Ákvörðunin er tekin í samræmi við tillögur skimunarráðs en þrátt fyrir að lítill tími sé til stefnu er margt á huldu um útfærslur og ekki síst hvernig þjónustan verður fjármögnuð.

Fyrirhugað er að flytja hópleit að krabbameinum frá Krabbameinsfélagi Íslands til hins opinbera. Krabbameinsfélagið átti frumkvæði að skimununum og hefur sinnt þeim áratugum saman. Frá og með áramótum munu skimanir vegna brjóstakrabbameina hins vegar flytjast til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri og skimanir vegna leghálskrabbameins til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Úti á landi er leghálsskimuninni nú þegar sinnt á heilsugæslunni.

Flutningur verkefnisins frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur verið í skoðun frá 2018 en heilbrigðisráðherra skipaði sérstakt skimunarráð til að taka út skipulag skimana til framtíðar, sem skilaði af sér áliti í febrúar 2019. Í framhaldinu lagði landlæknir m.a. til að embættinu yrði falið að skilgreina þau krabbamein sem skima ætti fyrir, að stofnsett yrði Stjórnstöð skimunar sem tæki yfir starf Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og rekstur Krabbameinsskrár og að komið yrði á verkefnastjórn til að hrinda tillögum í framkvæmd.

Í minnisblaði sínu ítrekaði landlæknir mikilvægi samráðs við þá aðila sem að málinu koma og nýtingu fagþekkingar þeirra sem unnið hefðu að umræddum verkefnum. „Ekki þarf að tíunda mikilvægi þess að flutningi starfsemi fylgi nauðsynlegt fjármagn, þekking og mannauður,“ sagði einnig í minnisblaðinu.

En hver er staðan, nú þegar tæpt ár er til stefnu?

Þvert á ráðleggingar Landlæknisembættisins, sem mælti með því að brjóstamyndatökur yrðu áfram á vegum Krabbameinsfélagsins „eða hjá öðrum aðila eftir því hvernig um semst“, ákvað ráðherra að þær yrðu, eins og fyrr segir, færðar til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. Leghálskrabbameinsskimunin yrði framkvæmd hjá heilsugæslunni en eftir því sem Mannlíf kemst næst hafa engar ákvarðanir verið teknar um Stjórnstöð skimunar, staðsetningu hennar í heilbrigðiskerfinu eða hvaða verkefni henni verða falin. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu verður Krabbameinsskrá áfram á höndum félagsins, þrátt fyrir tilmæli landlæknis þess efnis að skráin héldi einnig utan um forstigsbreytingar krabbameins og önnur afbrigði, og að haldin væri skrá um skimanirnar almennt (skimunarskrá).

- Auglýsing -

Enginn viðmælandi Mannlífs hafði upplýsingar um það hvernig flutningur verkefnisins til spítalanna og heilsugæslunnar, hvorki undirbúningurinn né framkvæmdin, yrði fjármögnuð. Var fjármögnunin raunar sameiginlegt áhyggjuefni flestra þeirra sem rætt var við.

„Það er að fara í gang núna að skoða þau tæki sem eru þar og hversu mikið við getum nýtt og tekið yfir á Landspítalann“

Óvissa um tækjabúnað og mannauð

Hjá heilbrigðisráðuneytinu fengust þau svör að málin myndu skýrast þegar verkefnastjórn um útfærslu á fyrirliggjandi tillögum skilaði af sér. Niðurstöður hennar áttu að liggja fyrir í desember en gert er ráð fyrir að þær skili sér í hús á næstu dögum eða vikum. Það sem liggur fyrir er að skimuninni fyrir brjóstakrabbameini hefur verið fundinn staður í nýju göngudeildarhúsnæði Landspítala við Eiríksgötu.

- Auglýsing -

„Það er ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að fela Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri framkvæmd skimana frá og með næstu áramótum. Það starf hefur verið á höndum Krabbameinsfélags Íslands í mörg ár og þau náttúrlega voru brautryðjendur á þessu sviði og hafa sinnt þessu mjög vel en nú hefur okkur verið falið þetta verkefni,“ sagði Maríanna Garðarsdóttir, forstöðumaður rannsóknarþjónustu LSH, í samtali við Mannlíf. Hún sagði vinnu við húsnæðið um það bil að fara af stað en huga þyrfti að mörgum öðrum þáttum, ekki síst tækja- og hugbúnaði auk mannafla.

Maríanna Garðarsdóttir forstöðumaður rannsóknaþjónustu LSH

Spurð að því hvort tækjabúnaður og mannauður Krabbameinsfélagsins yrði nýttur á nýjum stað sagði Maríanna það óljóst.

„Það er að fara í gang núna að skoða þau tæki sem eru þar og hversu mikið við getum nýtt og tekið yfir á Landspítalann,“ sagði hún en Krabbameinsfélagið á umrædd tæki. „Starfsfólkið er náttúrlega í vinnu hjá Krabbameinsfélaginu sem er sjálfstætt fyrirtæki og flyst ekki sjálfkrafa yfir en auðvitað viljum við hyggja að þeim mannauði sem þar er og sjá hvernig við gætum tekið við því fólki sem hugsanlega vill koma til okkar í framhaldinu.“ Maríanna segir mönnun viðvarandi vandamál í heilbrigðiskerfinu og ljóst sé að það hafi löngum verið skortur á röntgenlæknum og geislafræðingum í tengslum við greiningu brjóstameina. Því væri Landspítalanum augljóslega akkur í þeim einstaklingum sem hefðu starfað hjá Krabbameinsfélaginu.

Það er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hversu heppilegt það er að bæta verkefnum á Landspítalann, sem hefur þegar fullar hendur og ekki nándar nærri það fjármagn sem þarf til að sinna sínu með sóma. Krabbameinsfélagið greindi frá því í nóvember sl. að biðtíminn eftir framhaldsskoðun, sem Landspítalinn hefur séð um frá 2017, sé sjö sinnum lengri en alþjóðleg viðmið kveða á um, eða 35 dagar í stað fimm. Þetta þýðir að einstaklingur sem hefur farið í skimun þar sem niðurstöður eru óeðlilegar, gæti þurft að bíða í meira en mánuð eftir frekari rannsóknum. Maríanna segir biðtímann augljóslega of langan; vandinn sé skortur á mannafla.

„En það er með þetta eins og annað; það þarf að fylgja þessu fjármagn og það þurfa að vera tækifæri til að sinna þjónustunni eins vel og mögulegt er.“

En hvernig á Landspítalinn að geta sinnt skimuninni með sómasamlegum hætti ef hann getur ekki unnið á þessum biðlista?

„Það er mjög góð spurning,“ svarar Maríanna en ítrekar að skimunin og framhaldsgreiningin sé aðskilin starfsemi. „Það sem hefur verið að gerast á síðasta ári er að það voru að skila sér fleiri konur í skimun, sem er mjög jákvætt, en á sama tíma greinast fleiri mein sem valda þá auknu álagi á þessa greiningu. Við höfum fengið lækna erlendis frá til að koma reglulega og vinna biðlistana niður en því miður safnast alltaf aftur á þennan lista.“ Maríanna ítrekar að ávallt sé reynt að forgangsraða þannig að þær konur fái þjónustu sem fyrst þar sem sterkur grunur sé um krabbamein.

Spurð að því hvernig Landspítalanum hugnist að taka verkefnið yfir segir hún starfsmenn spítalans nálgast það með jákvæðu hugarfari.

„En það er með þetta eins og annað; það þarf að fylgja þessu fjármagn og það þurfa að vera tækifæri til að sinna þjónustunni eins vel og mögulegt er. Í ljósi þeirra sparnaðaraðgerða sem við þurfum að gangast undir á þessu ári þá er erfitt að taka upp nýja starfsemi. En við ætlum að reyna að sinna þessu eins vel og hægt er.“ Maríanna segist ekki hafa séð neinar tölur þegar kemur að fjármögnun og eins sé margt óljóst varðandi tækjabúnað og ekki síður hugbúnað, sem sé kostnaðarsamur útgjaldaliður hjá stofnun á borð við spítalann. Skimunin sé flókið verkefni sem þarfnist góðs skipulags og utanumhalds og tíminn til stefnu sé skammur.

Maríanna segir að vissulega hafi verið hugað að þeirri umgjörð sem skapa þarf starfseminni til að freista þess að fá sem flestar konur í skimun og segist vonast til þess að hið góða andrúmsloft sem myndast hefur hjá Krabbameinsfélaginu verði einnig til staðar á Landspítalanum. Þjónustukönnun sem unnin var fyrir Leitarstöðina sl. vor leiddi m.a. í ljós að 90% kvenna mat almenna upplifun sína af komu á Leitarstöðina mjög góða eða frekar góða, að 94% þótti viðmót starfsfólks mjög gott eða frekar gott og að 91% taldi sig fá mjög eða frekar fullnægjandi svör við spurningum sínum. Þá þótti 87% aðstaðan mjög góð eða frekar góð og 96% heimsóknartíminn hæfilegur.

Lestu meira í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -