Þrotabú WOW air hefur ákveðið að höfða fjölda riftunarmála vegna greiðslna sem skiptastjórar búsins telja hafa verið inntar af hendi á vafasömum tíma vegna stöðu fyrirtækisins. Samkvæmt frétt RÚV áttu greiðslurnar sér stað í mars í fyrra en flugfélagið fór í þrot í lok sama mánaðar.
Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóra búsins, staðfesti í samtali við Mannlíf að um væri að ræða um 13 mál en vildi ekki tjá sig um það hvort Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW, væri stefnt í þeim öllum líkt og RÚV hélt fram. Í frétt RÚV, sem var birt í kjölfar skiptafundar í gær, sagði að stærsta riftunarkrafan varðaði kaupréttargreiðslur til Títans, móðurfélags WOW, en heildarupphæð greiðslanna næmi um 2 milljörðum.
Þorsteinn sagðist ekki getað staðfest töluna.
Morgunblaðið greindi frá því síðustu helgi að hópur skuldabréfaeigenda sem tók þátt í skuldabréfaútboði WOW í september 2018 hefði sent fyrrverandi forstjóra og stjórn bréf þar sem þess væri krafist að þau bættu það tjón sem skuldabréfaeigendurnir urðu fyrir þegar WOW fór í þrot.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru stjórnendurnir sem kröfurnar beinast að Skúli Mogensen, Liv Bergþórsdóttir, þáverandi stjórnarformaður, Helga Hlín Hákonardóttir lögmaður og Davíð Másson, flugrekandi og fjárfestir.