Ríkið greiddi í gær út bætur á grundvelli laga um bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem kveðinn var upp í fyrra. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið.
Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson, auk maka og barna Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski fengu alls 815 milljónir greiddar á grundvelli laganna.
Bæturnar eru skattfrjálsar og skerða ekki bætur almannatrygginga eða sambærilegar greiðslur. Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu.