Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0.9 C
Reykjavik

Þegar lömbin þögnuðu í Hrunamannahreppi: „Ég hef tæplega séð lömb eins illa útleikin eftir hunda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann þriðja júlí árið 1991 urðu bændur í Hrunamannahreppi varir við dauð lömb af nokkrum bæjum sveitarinnar. Sífelt fleiri lömb fundust afar illa útleikin og þegar blóðbaðinu lauk, lágu 34 lömb í valnum og tíu voru særð.

Sökudólgarnir voru fjárhundar af svokölluðu Skotablendingskyni en tveir voru drepnir á staðnum, eftir að upp um málið komst en þann 11. júlí, er DV skrifaði um drápin, var verið að leita að þeim þriðja. Féð hafði verið á sameiginlegu en nokkuð litlu og afmörkuðu beitilandi bænda í hreppnum en talið var að lóðarí hefði ollið þessari hegðun hundanna.

Hér má lesa frétt DV um málið en hún var skrifuð 11. júlí 1991:

Fjárhundar í Hrunamannahreppi limlesta og tæta fé:

Hundarnir drápu 34 lömb og særðu tíu

34 lömb hafa fundist limlest og tætt á bæjunum Skipholti I og III og að Kotlaugum í Hrunamannahreppi í síðustu viku. 10 lömb til viðbótar, frá bæjunum Skollagróf og Haukholtum, hafa fundist slösuð. Ekki er þó víst að öll þau lömb lifi. Ljóst er að hundar í sveitinni eru sökudólgarnir. Tveir hundar hafa þegar verið drepnir en talið er að fleiri hundar hafi átt í hlut og er þeirra leitað. Hér var um að ræða svokallaða Skotablendinga. Féð var á sameiginlegu en þó tiltölulega litlu og afmörkuðu beitarlandi bænda í hreppnum. Talsvert af fé á landinu er undanflæmt og einnig vantar lömb undir margar ær sem enginn veit um. „Lömbin voru mjög illa bitin. Ég hef tæplega séð lömb eins illa útleikin eftir hunda. Auk þess er þetta óvenjumikið,“ sagði Loftur Þorsteinsson, bóndi og oddviti í Haukholtum, í samtali við DV. Hundarnir virtust hafa verið komnir upp á gott lag með að drepa. Þegar sást til hundanna virtust þeir vera tveir um hvert lamb. Annar beit í hálsinn á lambinu en hinn í lærin. Við urðum fyrst varir við að hundar voru að tæta fé á miðvikudagskvöldið 3. júlí. Eftir það fannst mikið af dauðum og særðum lömbum. Þetta er orðið tilfinnanlegt tjón. Það er búið að drepa tvo hunda sem voru staðnir að verki en þó er greinilegt að fleiri voru valdir að þessu. Við höfum verið að lýsa eftir öðrum hundi,“ sagði Loftur. Hann segir að bændur í sveitinni telji sennilegt að skýringin á þessu uppátæki hundanna sé að þeir hafi verið á lóðaríi: „Það er ekkert óalgengt að hundar, sem safnast utan um tík, æsi hver annan upp. Þannig geta meinlausir hundar heima fyrir orðið valdir að svona löguðu þegar þeir komast í hóp,“ sagði Loftur. Lýsingin á hinum eftirlýsta hundi er eftirfarandi: Svartur, þó ekki tinnusvartur, frekar stór og þykkur með hvítt ílangt lauf á nefi, nokkuð loðinn og örlítið snepplóttur aftan til á síðum og lærum, það er ekki alveg genginn úr hárum. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -