Í nótt klukkan 04:31 varð jarðskjálfti 3,5 að stærð, 1,9 km norður af Grindavík. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt. Klukkan 04:59 varð þá skjálfti 3,2 að stærð á svipuðum slóðum.
Kennarinn Rannveig Jónína Guðmundsdóttir, íbúi í Grindavík, viðurkennir að jarðskjálftarnir í nótt og möguleg kvikusöfnun vestan við fjallið Þorbjörn valdi henni töluverðum áhyggjum.
„Það eru allir frekar skelkaðir,“ segir Rannveig. Hún vaknaði upp við skjálftana í nótt. „Það var ansi óþægilegt að vakna upp við þetta og klukkutíminn eftir fyrsta skjálftann var mjög ónotalegur. Ég sat bara með símann uppi í rúmi og skoðaði vedur.is til að kanna upptökin og stærð skjálftans. Manni var ekkert farið að litast á blikuna,” útskýrir Rannveig.
„Þetta var snarpur skjálfti og óþægilegt að vakna við þetta.”
„Þegar maður opnaði samfélagsmiðla þá sá ég að ég var ekki ein um vera skelkuð. Þetta var snarpur skjálfti og óþægilegt að vakna við þetta.”
Rannveig kveðst vera búin að gera einhverjar ráðstafanir ef til rýmingar kæmi. „Við fjölskyldan erum búin að setja nokkrar flíkur ofan í tösku og það er klár listi. Þó svo að líkurnar séu litlar á að eitthvað gerist að þá friðar það mann óneitanlega að vera við öllu búinn.“
Sjá einnig: Óvissustigi lýst yfir vegna landriss við Þorbjörn – Íbúafundur í Grindavík á mánudag