Þriðjudagur 3. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Meeks-fjölskyldan myrt – Sex ára stúlka lifði blóðbaðið af

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Taylor-bræðurnir voru hreinræktuð óbermi og létu sig litlu varða hvaðan peningarnir komu eða með hvaða hætti. Þeir voru á meðal auðugustu manna á heimaslóðum sínum, en alkunna var að auður þeirra var ekki tilkominn með ærlegum hætti.

Þeir skirrtust ekki við að úthella blóði ef svo bar undir og því fékk fjölskylda ein í Missouri í Bandaríkjunum að kynnast af eigin raun.

Hún var tætingsleg unga stúlkan sem bankaði upp á hjá frú Carter í Linn-sýslu í Missouri í Bandaríkjunum að morgni 11. maí árið 1894. Frú Carter fór til dyra og fyrir utan stóð Nellie Meeks, sex ára dóttir nágrannanna. Frú Carter leist ekki á það sem hún sá; klæði Nellie voru í henglum, andlit hennar þakið drullu og blóði og stór skurður á enni hennar. Nellie gat vart gert sig skiljanlega, en frú Carter skildi þó að foreldrar og yngri systur Nellie höfðu verið myrt kvöldið áður. Sjálf hafði Nellie sloppið því morðingjarnir töldu sig hafa náð að ljúka verkinu.

Frú Carter gat ekki hugsað sér að fara frá Nellie, en ekki var fleiri fullorðnum til að dreifa á heimilinu. Því sendi frú Carter níu ára son sinn, Jimmy, til að kanna málið. Jimmy gat ekki fundið lík fjölskyldu Nellie og því varð úr að Nellie fór með honum og leiddi hann að galta. Undir galtanum var grunn gröf og í henni lík föður hennar og móður, Gus og Deloru, og systra hennar, Hattie, fjögurra ára, og Mary, átján mánaða. Delora hafði verið barnshafandi og misst fóstur sem einnig var að finna í gröfinni. Gus og Delora höfðu verið skotin til bana og stúlkurnar barðar til dauðs með grjóthnullungi.

Meeks-hjónin; Gus og Delora

Þegar Jimmy og Nellie komu til baka sendi frú Carter son sinn umsvifalaust til að færa nágrönnunum tíðindin. Á leiðinni rakst Jimmy á George Taylor þar sem hann vann á kornakri sínum og upplýsti hann um síðustu atburði. George fór með Jimmy heim til sín og sagði honum að bíða þar á meðan George leggði á klárana. Síðan myndu þeir fara saman að heimili Meeks-fjölskyldunnar. Jimmy gerði sem George bauð, en biðin varð æði löng því George kom aldrei með klárana. George kom yfirhöfuð ekki til baka.

Þegar þarna var komið sögu hafði læknir verið sóttur til að huga að Nellie heima hjá frú Carter. Á meðan læknirinn gerði að áverkum Nellie sagði hún frá því sem gerst hafði.

- Auglýsing -

Óheiðarlegir hrappar

„Þegar við vorum að fara upp hæðina sagði maðurinn með yfirskeggið að honum væri kalt á fótunum og fór af vagninum og gekk með honum, hann skaut á pabba og pabbi stökk af vagninum og hljóp,“ sagði Nellie. Hún sagði að þá hefði mamma hennar öskrað og ætlað að stökkva af vagninum og þá hefðu mennirnir skotið hana og á aðra systur hennar.

„Þá börðu þeir mig í höfuðið og ég missti meðvitund,“ sagði Nellie. Þegar mennirnir hentu henni úr vagninum komst hún til meðvitundar og varð vitni að því þegar þeir reyndu að kveikja í galtanum.

„Þau eru öll dauð, helvítis pakkið,“ heyrði Nellie manninn með yfirskeggið segja.

- Auglýsing -

„Þeir mokuðu yfir mig, og ég átti erfitt með að anda. Ég heyrði þá tala um að þeir gætu ekki fengið eldinn til að taka við sér.“ Þeir sem Nellie talaði um voru George Taylor og bróðir hans, William, sem voru á meðal auðugustu manna í norðausturhluta Missouri. Það var þó vitað að bræðurnir höfðu ekki auðgast með ærlegum hætti og höfðu verið ákærðir fyrir skjalafals, íkveikjur og nautgripaþjófnað. Gus Meeks hafði verið leiguliði á jörð bræðranna og hafði blandast í mál er varðaði nautgripaþjófnað þeirra. Gus hafði verið ákærður, játað sök sína og verið stungið í grjótið. En mánuði fyrir morðin hafði hann verið náðaður gegn því að hann bæri vitni gegn Taylor-bræðrunum.

Bræðurnir handteknir

Taylor-bræðurnir vildu ólmir koma í veg fyrir að Gus bæri vitni og buðu honum 1.000 dali fyrir að yfirgefa svæðið. Gus virðist hafa þekkst boðið, en þegar bræðurnir komu til að fylgja honum áleiðis, að kvöldi 10. maí, fékk Delora slæmt hugboð. Hún óttaðist um líf eiginmanns síns og krafðist þess að öll fjölskyldan færi, fannst enda líklegt að bræðurnir væru líklegir til að ráða þeim öllum bana. Í ljósi frásagnar Nellie var gefin út kæra á hendur bræðrunum og í júní þetta ár voru þeir handteknir í Batesville í Arkansas og fluttir til Missouri. Þeir buðu 50.000 dali í tryggingu, tilboðinu var hafnað og þeim gert að dúsa á bak við lás og slá fram að réttarhöldum.

Því fór þó fjarri að málinu væri lokið. Þá þegar var réttarkerfið orðið það þróað að menn sem greinilega voru þrælsekir gátu sloppið við snöruna, og öfugt að sjálfsögðu. Réttarhöldin fóru fram í Carollton, en beina þurfti járnbrautalestinni til St. Joe því lögreglustjórinn hafði hlerað að 250 manna hópur hygðist stöðva för lestarinnar til Carollton. Var hópurinn vel vopnum búinn og huldu menn andlit sitt með hálsklútum og var ætlunin að hengja bræðurna án þess að réttað væri yfir þeim.

Það gekk sem sagt ekki eftir og réttarhöldin hófust 18. mars, 1895 og bar þó nokkur fjöldi vitni. Sum vitnin höfðu heyrt Taylor-bræðurna hóta Gus Meeks og önnur sögðust hafa heyrt skothvelli umrætt kvöld og einnig séð til ferða hestvagns bræðranna. Sannanir voru óbeinar en þó efaðist enginn um sök bræðranna. Að loknu tveggja klukkutíma skrafi varð ljóst að kviðdómur var ekki á einu máli og síðar kom enn fremur í ljós að tveimur kviðdómurum höfðu verið boðnir 750 dalir fyrir að mæla með sýknu.

Annar slapp, hinn ekki

Réttað var aftur yfir bræðrunum í júlí og ákæruatriðum fækkað. Einungis voru þeir sóttir til saka fyrir eitt morð að yfirlögðu ráði; morðið á Gus. Talið var að erfitt yrði að sanna slíkt hið sama varðandi eiginkonu Gus og börn þeirra hjóna. Meðan á réttarhöldunum stóð var Nellie í umsjá saksóknarans, Pierce, og eiginkonu hans. Nellie var viðstödd bæði réttarhöldin en bar ekki vitni. Tíðum mátti þó sjá hana klifra upp í kjöltu Pierce og koma sér fyrir þar. Þann 2. ágúst, 1895, komst kviðdómur að einróma niðurstöðu og Taylor-bræðurnir voru dæmdir til dauða.

Nellie Meeks

Bræðurnir áfrýjuðu dómnum án árangurs og úrskurðað var að þeir skyldu hengjast 30. apríl árið 1896. Það gekk ekki fullkomlega eftir því bræðrunum tókst að flýja úr fangelsinu 11. apríl. William Taylor náðist fljótlega aftur, en George tókst að forðast hinn langa arm laganna þar til hann dó, hvenær sem það nú var. William hins vegar gekk til fundar við skapara sinn klukkan 11 fimmtudaginn 30. apríl, eins og lagt hafði verið upp með. Af Nellie er það að segja að hún ólst upp hjá ömmu sinni, giftist Albert nokkrum Spray og lést af barnsförum árið 1910. Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri, úti er ævintýri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -