„Hér er fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd eftir mánuðum, miðað við umsóknir síðustu níu mánuðina á undan. Toppurinn er í maí í fyrra, en eftir það hefur fjöldinn dregist hratt saman. Þetta heyrist ekki í umræðunni fyrir gaspri í þeim sem ekkert vita og ekkert vilja vita, þeim sem lýsa yfir stjórnleysi á landamærunum og vilja láta fólk fá á tilfinninguna að Ísland sé að verða undir einhverri holskeflu hælisleitenda.“ Þannig hefst Facebook-færsla Gunnars Smára Egilssonar, Sósíalistaforingja sem hann birti í gær.
Í færslu Gunnars Smára birtir hann graf sem sýnir hvað fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi, hefur snarfækkað undanfarið.
Gunnar smári heldur áfram: „Ástæða þess að hingað sóttu fleiri um hæli 2022-23 var annars vegar boð Sjálfstæðisflokksins til allra íbúa Venesúela um fjögurra ára dvalarleyfi og hins vegar boð ríkisstjórnar Íslands til allra í Úkraínu um tveggja ára dvalarleyfi, sem nú hefur verið framlengt um eitt ár.“
Segir Sósíalistaforingin ekkert til í því að fólk sé dregið hingað í stórum stíl.
„Það er engin rök fyrir þeirri þvælu sem veður uppi um að einhverjar sérreglur íslenskar dragi fólk hingað í stórum hópum. Engin gögn sem styðja þann málflutning. Samt veður þessi della uppi.“
Í lokaorðum sínum skýtur Gunnar Smári föstum skotum á Samfylkinguna sem hann segir hafa nýlega tekið upp stefnu Miðflokksins í málefnum innflytjenda.
„Og fékk nýja forystu Samfylkingarinnar til að leggja frá sér stefnu flokksins í málefnum innflytjenda og taka upp stefnu Miðflokksins. Það má segja að þar hafi óreynd forysta keyrt út af í fyrstu beygju. Og sýnt að henni er ekki treystandi. Við þurfum stjórnmálaafl sem hleypur ekki eftir kröfum hægrisins í hvert sinn sem það geltir. Forystu þorir og þolir að standa gegn þvælunni sem gusast yfir okkur frá hægri.“