Jón Viðar Jónsson er óánægður með svar framkvæmdastjóra Krónunnar gagnvart ásökunum Ólafs Haukssonar um að Krónan hafi haldið áfram að selja viðskiptavinum vörur Wok on veitingastaðarins, eftir að upp komst um brotastarfsemina þar.
Sjá einnig: „Fjarstæðukennt að halda því fram að Krónan hafi fórnað hagsmunum viðskiptavina sinna“
Þekktasti gagnrýnandi landsins, Jón Viðar Jónsson er síður en svo ánægður með svör Guðrúnar Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar sem vísaði ásökunum Ólafs Haukssonar um vitneskju Krónunnar um brotastarfsemi eiganda Wok on veitingastaðarins sem var í viðskiptum við verslunina, til föðurhúsanna. Kallar Jón Viðar svör hennar „aumlega tilraun“.
Jón skrifaði um málið á Facebook og sparaði ekki stóru orðin:
„Afskaplega er þetta aumleg tilraun hjá framkvæmdastjóra Krónunnar að afsaka óafsakanlegt kæruleysi sitt gagnvart fyrirtækjum þessa vétnamska gangsters sem lögreglan hefur loksins náð að góma. Hún hellir skætingi yfir Ólaf Hauksson, en játar svo að Krónan þurfi nú að gera aðeins meira til að tryggja að ekki sé eitrað fyrir viðskiptavini verslunarinnar. Heldur konan að við séum þau fífl að sjá ekki hvurslags yfirklór þetta er? En Ólafur á þakkir skildar fyrir að vekja athygli á hneykslinu. Og það verður sannarlega bið á þvi að ég fari aftur að versla i Krónunni. Ég efast um að ég myndi þora að smakka á dósamatnum úr henni, hvað þá meir.“