„Landaður afli íslenskra skipa var 65,4 þúsund tonn í febrúar 2024 sem er 56 prósent minni afli en landað var í febrúar 2023,“ segir í frétt frá Hagstofu.
Þá segir að uppsjávarafli hafi verið rúmlega 25 þúsund tonn en var 113 þúsund tonn í febrúar í fyrra og samdráttur því um 78 prósent. Er mismunurinn aðallega vegna loðnubrests. Botnfiskafli var tæp 39 þúsund tonn sem er 10 prósent aukning samanborið við febrúar í fyrra.
Aflamagn á tólf mánaða tímabili frá mars 2023 til loka febrúar 2024 var rúmlega 1.272 þúsund tonn sem er eins prósent samdráttur samanborið við afla á tólf mánaða tímabili ári fyrr. Botnfiskafli dróst saman um 11 prósent á tólf mánaða tímabilinu á meðan uppsjávarafli jókst um 5%.
Upplýsingarnar um fiskafla sem birtast í fréttatilkynningu Hagstofunnar eru bráðabirgðatölur. Þær byggja á upplýsingum Fiskistofu og berast þær frá löndunarhöfnum innanlands, útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis. Fiskistofa annast samantektina.