Stefán Eiríksson, borgarritari og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu er meðal þeirra sem sótt hafa um starf útvarpsstjóra RÚV, að því er fram kemur á Kjarnanum. Sjálfur hefur Stefán ekki viljað tjá sig um málið.
Þá fullyrðir Kjarninn að Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á Stöð 2 og nú sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi, hafi einnig sótt um stöðuna.
Samkvæmt Capacent, sem heldur utan um ráðningarferlið, er reiknað með að ráðningarferlið klárist í næstu viku, en upphaflega var gert ráð fyrir því yrði lokið um mánaðarmótin.
Meðal annarra umsækjenda eru Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins, Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og fréttastjóri RÚV og Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla hjá RÚV.