Íslensk yfirvöld telja ekki ástæðu til að hvetja til ferðabanns til Kína en ferðamenn eru hvattir til að huga vel að sýkingavörnum. Þá þykir ekki ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi.
Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef Landlæknisembættisins.
Þar segir að undirbúningur á Íslandi vegna kórónaveirunnar 2019-nCoV miðist við alvarleika veirunnar í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga.
Undirbúningur á Íslandi sé samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra en í því felist að leiðbeiningar og áætlanir frá SARS-faraldrinum 2002 verði uppfærðar og viðbragðsaðilar upplýstir.
- Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna verða uppfærðar og gefnar út.
- Gefnar verða út leiðbeiningar til almennings um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um sýkingu af völdum hinnar nýju veiru.
- Leiðbeiningar verða gefnar til ferðamanna um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og hvernig ferðamenn geti nálgast heilbrigðiskerfið hér á landi.
- Á alþjóðlegum flugvöllum landsins verður unnið samkvæmt landsáætlun um sóttvarnir flugvalla.
- Heilbrigðisstofnanir hafa verið hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir.
- Ekki er ástæða til að hvetja til ferðabanns til Kína en ferðamenn eru hvattir til huga vel að sýkingavörnum Opnast í nýjum glugga.
- Ekki er ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi.
„Sóttvarnalæknir birtir nýjar og mikilvægar upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis eins og þurfa þykir,“ segir á vef embættisins.
Þar segir einnig að sennilega sé 2019-nCoV upprunin í dýrum en hafi öðlast hæfileikann til að sýkja menn. „Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall smitaðra fær alvarlega sýkingu eða hvaða dýr er upphaflegur hýsill veirunnar.“