Ýmislegt var að frétta í dagbók lögreglu í nótt
Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í hverfi 103 og var málið afgreitt á vettvangi. Þá var tilkynnt um aðila með stæla og áreiti við starfsmenn og gesti á veitingastað í hverfi 101. Honum var vísað á brott. Aðili var handtekinn í hverfi 101 eftir ítrekuð afskipti lögreglu af honum vegna ölvunaróspekta og hann vistaður í fangaklefa. Þá var ofurölvi ungmenni í hverfi 104 og þurfti að flytja viðkomandi á slysadeild.
Mikið var um ölvunarakstur og voru ökumenn ýmist sendir í blóðsýnatöku og/eða vistaðir í fangaklefa.
Ökumaður var kærður fyrir að hafa lögboðinn ljósabúnað ekki tendraðan. Einnig var bifreiðin boðuð í skoðun sökum þess að rúðurnar voru skyggðar. þá voru höfð afskipti af erlendum aðila sem framvísaði skilríki sem grunur lék á að væri falsað. Hann var því kærður fyrir skjalafals og skilríkið haldlagt.
Í Árbænum var svo ökumaður kærður fyrir að aka á 122 km/klst hvar hámarkshraði er 80.