Kristinn Hrafnsson talar um hrollvekjandi hugmyndir stjórnanda Facebook um að eyða færslum þar sem orðið síonisti kemur fram.
Ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson segir á Facebook að nú séu stjórnendur samfélagsmiðilsins að íhuga að eyða póstum þar sem orðið síónisti kemur fram.
„Nú er fésbókin að velta því fyrir sér að setja ritskoðunaraugað á orðið síonisti (eða zionisti) og eyða póstum þar sem það kemur fyrir. Þetta er gert undir kröfu frá pólitískum þrýstihópum gyðinga sem segja að gagnrýni á zionsita feli í sér gyðingahatur.“ Þannig hefst færsla Kristins en heldur svo áfram. „Þeir sem andmæla þessu helst eru þeir gyðingar sem eru and-zionistar, til dæmis þeir gyðingar sem krefjast þess núna að þjóðarmorðið á Gaza sé stöðvað. Þeir benda réttilega á að í raun og sanni felist visst gyðingahatur í því að setja samasemmerki á milli hugmyndafræði zíonismans (nú eða hreinlega Ísraels) og allra gyðinga heimsins.“
Því næst kemur Krisinn með samlíkingu:
„Þetta er eins og ef upp kemst að einn sendibílstóri er barnaníðingur sé brugðist við á opinberum (en einkavæddum) umræðuvettvangi með því að banna orðið „barnaníðingur“ til þess að vernda alla sendibílstjóra gegn hatursorðræðu. Þvert á þá ætlan að vernda stétt sendibílstjóra, myndi þetta valda samjöfnuði.“
Að lokum segir Kristinn að þróunin sé hrollvekjandi.