Ansi seinheppnir unglingspiltar rændu spilakassa í Eden í Hveragerði í lok ágúst árið 1995.
Tveir unglingspiltar, 14 og 15 ára gerðu (ó)heiðarlega tilraun til að ræna spilakassa í Eden í Hveragerði haustið 1995. Ekki gekk betur en svo en að lítið sem ekkert fékkst út úr kassanum þar sem hann hafði verið tæmdur daginn áður. Og ekki nóg með það heldur húkkuðu strákarnir sér far á Selfoss en enginn annar en eigandi Eden, Bragi Einarsson, var sá sem tók þá upp í. Lét hann sem ekkert væri og ræddi við drengina í mesta bróðerni og þóttist ætla að skutla þeim á þann stað sem þeir báðu hann um en hafði þó allt annað í hyggju. Fór svo að hann skutlaði þeim beint á lögreglustöðina á Selfossi en eftir stuttan flótta náðust þeir báðir og viðurkenndu athæfi sitt. Sá þriðji, vitorðsmaður þeirra frá Hveragerði játaði einnig á sig ránið.
DV fjallaði um málið þann 1. september 1995 en hér fyrir neðan má lesa fréttina:
Tveir piltar húkkuðu far eftir þjófnað hjá Braga í Eden
Bragi tók þá upp í og ók þeim á lögreglustöðina
„Þegar ég kom niður í Eden um sexleytið i gærkvöldi var mér sagt að tveir piltar hefðu verið þar að brjóta upp spilakassa. Þeir voru farnir þegar ég kom á staðinn. Ég fór strax upp í bíl og tók með mér stúlku sem sagðist geta borið kennsl á þá. Við fundum strákana niðri á þjóðvegi þar sem þeir voru að húkka sér far. Ég stöðvaði og strákarnir spurðu hvort ég væri nokkuð að fara á Selfoss. Ég sagði bara já og tók þá upp í, lét sem ekkert væri og ákvað að aka þeim bara á lögreglustöðina þar. Á leiðinni sögðust þeir vera úr Reykjavík þannig að þetta var allt í bróðerni hjá okkur til að byrja með,“ sagðí Bragi Einarsson, eigandi Edens í Hveragerði, í samtali við DV í morgun. Hann hélt ró sinni, svo ekki sé meira sagt, þegar hann freistaði þess að koma tveimur 14 og 15 ára piltum til lögreglu um kvöldmatarleytið í gær. „Strákarnir vildu fara úr bílnum við Shellsjoppuna á Selfossi, dálítið fyrr en við komum að lögreglustöðinni. Ég sagði þá að ég væri nú hálfvitlaus að keyra svona glannalega því það væru engar bremsur á bílnum. Þá virtist ekkert gruna. Þegar ég kom að kaupfélaginu við Austurveg vildu þeir stöðva þar. Ég sagði þá að það væri skilti þarna sem segði að ég mætti ekki stoppa. Þegar ég kom austar í bæinn, áleiðis að lögreglustöðinni, fóru piltarnir að ókyrrast. Þá jók ég hraðann og ók beint að stöðinni. Um leið og ég stöðvaði fóru þeir út og hlupu í gegnum garða. Ég fór inn og gerði lögreglumönnum viðvart sem fóru á tveimur bílum til að leita og fundu þá fljótlega,“ sagði Bragi. Hann sagði að hér væri ekki um peningamál að ræða, heldur það að koma lögbrjótum í réttar hendur. Spilakassinn var tæmdur í gær þannig að aðeins um þúsund krónur voru í honum. Piltarnir eru frá Selfossi og viðurkenndu athæfi sitt. Þriðji pilturinn, sem er frá Hveragerði, var vitorðsmaður þeirra. Hann hefur einnig játað.