Föstudagur 20. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Júlíana Dögg var kölluð api fyrir framan hóp af fólki: „Hver stal þér?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Háskólaneminn Júlíana Dögg Önnudóttir Chipa greinir á samfélagsmiðlinum Facebook frá kynþáttahatri sem hún varð fyrir í síðustu viku. Undanfarnar vikur og mánuði hefur umræða um kynþáttahatur aukist á Íslandi og telja sumir að ástandið hafi ekki verið jafn slæmt fyrir minnihlutahópa á Íslandi í mörg ár.

„Síðastliðin vika hefur verið skrítin, full af vonbrigðum, vanmætti, sorg og reiði. Ég varð fyrir rasisma tvisvar sinnum á 5 dögum. Í fyrra skiptið var ég kölluð api fyrir framan hóp af fólki og í seinna skiptið var ég spurð hvaðan ég fékk húðlitinn minn, ég segi að hann komi frá Mósambík og þá fæ spurninguna “hver stal þér?”.“ skrifar Júlíana um málið.

„Ég ætla ekki að fara dýpra í þessi atvik en ég finn mig knúna til þess að opna þessa umræðu.

Ég skil ekki hvernig fólk í fyrsta lagi hugsar svona og í öðru lagi að það láti svona út úr sér. Hvernig má það vera að árið 2024 sé verið að kalla mig apa og ég spurð hver stal mér og hvernig ég komst til Íslands?“ spyr hún.

„Sorglegur sannleikurinn er sá að þessi tvö atvik höfðu ekkert rosalega mikil áhrif á mig persónulega vegna þess að ég er svo vön þessu, pælið í því að ég er orðin svo vön því að verða fyrir rasisma að þetta hefur varla áhrif á mig? En það sem hafði mest áhrif á mig og er ein stærsta ástæða þess að ég vil opna þessa umræðu er að Adeline Brynja og Ayon Rúnar litlu frændsystkini Agnars eru mixed race eins og ég og ég vil ekki að þau verði fyrir rasisma á neinn hátt, það brýtur í mér hjartað að hugsa til þess að þau geta orðið fyrir áreiti fyrir það eitt að vera með dekkri húð en mörg, ég vil ekki að þau verði vön því að verða fyrir rasisma eins og ég. Þau eiga að geta gengið í skóla, stundað íþróttir og aðrar tómstundir, farið út í búð, farið í sund, skemmt sér og lifað lífinu án þess að verða fyrir rasisma. Tilfinningarnar sem ég lýsti í byrjun blossuðu upp þegar ég hugsaði til þeirra,“ heldur Júlíana áfram en orð hennar endurspegla að miklu leyti orð Brynju Dan Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem krafðist aðgerða gegn kynþáttahatri á Íslandi á Alþingi fyrr í mánuðinum og þá sagði Atli Harðarsson prófessor að kynþáttahatur á Íslandi væri sýnilegt.

„Þau eiga allt lífið eftir og ég vona að samfélagið leyfi þeim að vera þau sjálf og gefi þeim tækifæri til þess að blómstra.

Ég var líka einu sinni bara lítil stelpa með dekkri húð en fólkið í kringum mig og það tekur á að þurfa að heyra það liggur við daglega að ég sé öðruvísi. Ég hef byggt mér skjöld og reyni að leyfa þessu ekki að hafa áhrif á mig en ég vil ekki að það sé það sem þarf til þess að komast af í samfélaginu okkar. Ég bið ykkur að líta inn á við og hugsa ykkur tvisvar og jafnvel þrisvar um áður en þið segið eitthvað sem viðkemur húðlit fólks eða uppruna. Við erum öll manneskjur og eigum skilið að komið sé fram við okkur öll af virðingu,“ skrifar Júlíana svo að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -