Fimm starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum hjá DV. Engum blaðamönnum var sagt upp en samkvæmt heimildum Mannlífs starfaði fólkið í ýmsum deildum fyrirtækisins.
Mannlíf hefur jafnframt heimildir fyrir því að Karl Garðarsson, sem starfaði sem framkvæmdastjóri DV, sé á útleið. Óhætt er að segja að Karl sé mikill reynslubolti í bransanum en hann hefur aldarfjórðungs starfsreynslu í íslenskum fjölmiðlum, gengdi meðal annars starfi fréttastjóra á Stöð 2 og síðar framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Norðurljósa. Þá var Karl einn stofnenda, framkvæmdastjóri og ritstjóri Blaðsins/24 stunda og um tíma gengdi hann starfi útgáfustjóra prentmiðla Árvakurs. Haustið 2017 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgáfufélags m.a. DV, DV.is, Eyjunnar og Bleikt.
Í desember á síðasta ári greindu fjölmiðlar frá því að gerður hafi verið samningur um kaup Torg ehf., sem gefur út Fréttablaðið og heldur úti frettabladid.is og hringbraut.is, á DV og dv.is, en samruninn er háður samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þegar Mannlíf hafði samband við forstjóra Torg ehf., Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur, sagðist hún ekkert vita um uppsagnirnar. Boltinn væri enn hjá Samkeppniseftirlitinu vegna samruna félaganna.