Í dag hefst verkfallskosning Eflingarfélaga sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Í færslu á Facebook í morgun segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að félagsmenn ætli ekki lengur að vera ósýnilegir í borginni. „Við erum hér og við erum á leið í verkfall,“ skrifar Sólveig Anna.
„Í meira en tíu mánuði höfum við reynt að ná eyrum samninganefndar borgarinnar og auðvitað borgastjóra, ritar formaður Eflingar í færslunni. „Þau hafa ekki lagt við eyrun. Þau hafa lagt fram eitt tilboð, óásættanlegt, verra en hinn svokallaði lífskjarasamningur.“
Sólveig Anna bendir á að ríflega 1800 manneskjur séu á kjörskrá, að miklum meirihluta konur. Þetta sé fólkið sem sé á lægstu launum á íslenskum vinnumarkaði. Þetta fólk hafi sjálfstætt samningsumboð. „Þetta fólk hefur lýðræðislegan rétt í samfélaginu okkar að eiga í viðræðum við svokallaða laungreiðendur á nokkura ára fresti, til að reyna að knýja á um betri kjör og aðstæður. Enginn, ekki borgarstjóri, ekki SA, enginn getur haft þennan rétt af fólkinu.“
Eins og kunnugt er tilkynnti Efling í gærmorgun tilkynnt um viðræðuslit vegna kjarasamningsgerðar og bar því við að Reykjavíkurborg hefði brotið lög og trúnað og dreift villandi fréttum til fjölmiðla um gang mála. Hefur Sólveig Anna látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að samninganefnd Eflingar mæti miklu virðingarleysi á samningafundum við Reykjavíkurborg og að stemningin sé fyrir neðan allar hellur. Hún tekur þó fram í fyrrnefndri færslu að Efling vilji semja. En af skynsemi. Og með sjálfsvirðinguna að vopni. „Við bjóðum borgastjóra að sýna okkur virðingu og vinskap og mæta okkur í opnu, lýðræðislegu ferli. Við vonum að hann taki boði okkar.“
Hún segir að nú sé komið að því að kjósa um aðgerðir. Það sé komið að því að beita máttugasta vopni vinnuaflsins. Það sé kominn tími til að sýna samstöðu, „hvort með öðru og með okkur sjálfum.
Borgin er í okkar höndum. Hún er líka í okkar hjörtum; við eigum heima í henni, hún er samfélagið okkar, við eigum hana nákvæmlega jafn mikið og allir aðrir. Við ætlum ekki lengur að vera ósýnileg í borginni okkar. Við erum hér og við erum á leið í verkfall.“
Hægt er að lesa færslu Sólveigar Önnu í heild sinni hér að neðan.