Lögreglan handtók í nótt mann sem hafði farið yfir girðingu við Reykjavíkurflugvöll. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn á göngu eftir flugbraut. Var hann handtekinn, grunaður um að raska öryggi loftfara og húsbrot og í kjölfarið vistaður í fangageymslu lögreglunnar.
Þess má geta að sami maður var handtekinn rúmlega þrettán klukkustundum áður fyrir sama brot. Þar fyrir utan hafði lögregla þurft að hafa afskipti af honum þar sem hann gat ekki greitt fyrir leigubíl, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá var maður handtekinn í gærkvöldi grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Sá hafði lent í umferðaróhappi um klukkan ellefu.