Brynjar Níelsson er orðinn félagsmaður í Félagi eldri borgara.
„Gamalmenni hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og nú er ég loksins orðinn félagsmaður í Félagi eldri borgara.“ Þannig hefst bráðfyndin Facebook-færsla Brynjars Níelssonar varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins. Og hann heldur áfram: „Soffía hefur alltaf sagt að ég hafi fæðst gamall. Það merki hún einkum á tónlistarsmekk mínum. Óþekkt sé að ungir menn í tilhugalífinu bjóði stúlkunni á tónleika með sænsku stórhljómsveitinni Sven-Ingvars og spili svo tónlist þeirra í brúðkaupsveislunni. Önnur merki þess að ég hafi fæðst gamall eru viðhorf mín til lífsins og tilverunnar og svo þetta eilífa þus og nöldur út af engu.“
Að lokum segist Brynjar velta fyrir sér úr hverju hann muni að lokum deyja og spurði Soffíu. „Þegar aldurinn færist yfir fer maður að velta fyrir sér úr hverju maður drepist. Spurði því Soffíu hvort hægt væri að drepast úr leiðindum. Hún taldi það ekki líklegt í mínu tilfelli en ekki ólíklegur dauðdagi þeirra sem stæðu mér næstir. Ég er ekki alveg að átta mig á hvað hún meinar með þessu.“