Um kvöldmatarleytið einn sunnudag í september árið 2000 virðist sem lukkudísirnar hafi vakað yfir níu ára dreng í Kópavoginum.
Drengurinn var að koma úr sundi með jafnöldrum sínum er hann hjólaði í gegnum nýbyggingahverfi í Kópvogi. Hjólaði hann fram hjá stórum steini er hann féll á hann. Steinninn rann niður brekku og drengurinn með og fóru þeir báðir fram af þriggja metra brún. Steinninn lenti á drengnum sem var svo fastur undir honum. Ljóst er að mun verr hefði getað orðið en leðja sem drengurinn hafði sokkið í við fallið, bjargaði líklega lífi hans. Þrjá fullorðna karlmenn þurfti til að ná bjarginu af honum en hann slapp með mar.
DV skrifaði um óhappið á sínum tíma en hér fyrir neðan má lesa fréttina:
Kópavogur: Bjarg féll á barn
Níu ára drengur var hætt kominn um sexleytið á sunnudaginn er bjarg féll ofan á hann þar sem hann var að hjóla í nýbyggingahverfi i Kópavogi. Hann hjólaði fram hjá steininum og lenti á honum með þeim afleiðingum að steinninn fór að renna niður brekku. Barnið og hjólið runnu niður þriggja metra brún og steinninn á eftir þeim. Steinninn lenti svo ofan á drengnum svo hann var fastur undir honum. Drengurinn, sem var að koma úr sundi með jafnöldrum sínum, kallaði á hjálp en hann hafði verið síðastur í hópi félaga sinna og heyrði enginn í honum í um 10 mínútur. Þegar hjálp barst þurfti þrjá fullorðna menn til þess að lyfta bjarginu af baminu. Betur fór en á horfðist i fyrstu því drengurinn og hjólið höfðu sokkið ofan í drullu. Marðist drengurinn því aðeins en slapp við önnur meiðsl. Hann var fluttur á slysadeild en fékk að fara heim að skoðun lokinni. Hjólið var fast í drullunni en faðir drengsins náði því upp síðar