Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Hrædd við snjóþungar fjallshlíðar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snjóflóðin sem féllu á Flateyri á þriðjudagskvöld vöktu ónotatilfinningu hjá mörgum sem upplifðu hamfarirnar sem riðu yfir þorpið 1995 með skelfilegum afleiðingum. Sorgin situr eftir en einnig sá mikli samhugur sem ríkti meðal þjóðarinnar á þessum erfiðustu tímum.

 

Sóley bjó á Flateyri þegar snjóflóð féll á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995. Hún var 11 ára gömul, varð sjálf undir flóðinu og missti 19 ára systur sína og 14 ára frænku. Árið 2016 kom út bók hennar um snjóflóðið; Nóttin sem öllu breytti en þar rekur hún atburði næturinnar og næstu daga og missera í tímaröð og af mikilli nákvæmni.

„Mér finnst þetta alltaf smáóþægilegt en ekki þannig að ég vilji ekki að það sé verið að fjalla um það,“ segir Sóley Eiríksdóttir spurð að því hvernig tilfinning það sé þegar Flateyri ratar í fjölmiðla og almenna umræðu í tengslum við snjóflóð eða snjóflóðahættu. „Ég er á því að það sé mikilvægt að tala um þetta svo þessir atburðir gleymist síður. Þessi flóð núna minna á það sem gerðist áður og minna á þá staðreynd að enn í dag eru fjölmörg svæði óvarin.“

Sóley bjó á Flateyri þegar snjóflóð féll á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995. Hún var 11 ára gömul, varð sjálf undir flóðinu og missti 19 ára systur sína og 14 ára frænku. Árið 2016 kom út bók hennar um snjóflóðið; Nóttin sem öllu breytti en þar rekur hún atburði næturinnar og næstu daga og missera í tímaröð og af mikilli nákvæmni. „Svona lífsreynsla fer aldrei frá manni og breytir öllum sem ganga í gegnum hana,“ segir Sóley í bókinni en 20 fórust í hamförunum. „Hún býr til ákveðin kaflaskipti, þannig að ævin skiptist í tvö skeið: fyrir og eftir flóð. Þeir sem upplifðu snjóflóðið urðu aldrei samir.“

„Manni líður auðvitað illa. Þetta vekur upp minningar sem ég hafði lagt til hliðar.“

Það liggur beint við að spyrja, nú „eftir flóð“: Hvernig var að heyra af því að stór flóð hefðu fallið á bæinn að nýju?
„Mér var mjög brugðið, að sjálfsögðu,“ svarar hún. „Pabbi minn hringdi í mig morguninn eftir og lét vita að tvö flóð hefðu fallið á þorpið. Mér brá sérstaklega þegar ég frétti að unglingsstúlka hefði farið undir annað flóðið og verið bjargað. Ég áttaði mig strax á því að þetta væri mun stærra en nokkuð sem hefði gerst síðan 1995 og það má segja að ég hafi varla hugsað um annað þann daginn.“

„Hefði aldrei þorað að taka áhættuna“

Sóley segir erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem sóttu að henni í kjölfarið. „Manni líður auðvitað illa. Þetta vekur upp minningar sem ég hafði lagt til hliðar. Þegar ég vann að bókinni gekk ég mjög nærri sjálfri mér í að endurupplifa þessa atburði og minningarnar þyrlast aftur upp núna. Ég finn mjög mikið til með fólkinu fyrir vestan, sem hlýtur að upplifa mikið óöryggi. Sjálf hef ég alltaf verið hrædd við snjóþungar fjallshlíðar eftir hamfarirnar 1995. Og þrátt fyrir að mér hafi þótt varnargarðarnir traustvekjandi, hef ég alltaf verið á því að ég myndi aldrei gista í Ólafstúni ef það væri snjóflóðahætta á Flateyri. Ég hefði aldrei þorað að taka áhættuna. Þessi nýju flóð sýna því miður að það er ekki hættulaust að vera í þessari götu þrátt fyrir varnargarðana og það er í raun ótrúlegt að við séum að upplifa það að sjá flóð af sambærilegri stærð og 1995-flóðið aðeins 25 árum síðar. Slíkt flóð ætti í raun, samkvæmt einhverjum reiknilíkönum, að gerast rétt um einu sinni á mannsævi.“

- Auglýsing -

Erfitt en gott uppgjör

Sóley fór ekki varhluta af því að eiga erfitt með að ná sér eftir þann mikla missi og hina miklu sorg sem sótti að Flateyingum hina örlagaríku nótt. Ekki síður eftir að bókin kom út. Öðrum þræði leið henni vel, enda stolt af því að hafa komið verkinu frá sér og fengið mjög góðar viðtökur.

„Það sem mér þótti einna vænst um var að fólki þótti bókin falleg þrátt fyrir að fjalla um jafnerfitt mál. Að einhverju leyti var ég samt búin að liggja of mikið í fortíðinni og eftir að ég fylgdi bókinni eftir hefur mér þótt frekar erfitt að tala um bókina og snjóflóðið. Ég var í raun bara alveg búin á því og var á tímabili við vinnslu bókarinnar orðin hálfþunglynd. Þetta tók því mikið á. Hins vegar tel ég að ég hafi unnið mjög vel út úr þessu tímabili fyrir vikið og komið sterkari út úr þessari lífsreynslu.“

- Auglýsing -

Samhugur þjóðar

„Dagana eftir flóðið kom samhugur þjóðarinnar vel í ljós,“ skrifar Sóley í Nóttin sem öllu breytti. „Um allt land var náttúruhamfaranna og afleiðinga þeirra minnst með ýmsum hætti. Bæna- og minningarstundir voru haldnar víða og voru fjölsóttar. Það var ekki síst aðdáunarvert að sjá hvað unga fólkið var duglegt að sýna hug sinn. Lítil börn söfuðu fé með ýmsum hætti fyrir fórnarlömb flóðsins og grunnskóla- og framhaldsskólanemendur efndu til kertafleytinga og blysfara víða um land sem voru vel sóttar. Hvarvetna gerði fólk það sem það gat til að láta Flateyringa finna hlýjan hug sinn og skipti þá engu hverja um ræddi […].“

Um 300 milljónir króna söfðuðust í söfnunarátaki innanlands og Færeyingar létu 50 milljónir af hendi rakna. Sóley segir þennan velvilja þjóðarinnar hafa lifað með sér, ekki síður en hinar erfiðu tilfinningar.

„Já, maður finnur sannarlega hvað þjóðin stendur saman í raunum sem þessum,“ segir hún. Samhugurinn varir. „Það eru margir sem hugsa til mín á stundum sem þessum. Það er ótrúlega fallegt að sjá hvað Flateyringar halda vel utan um hver annan og ég klökknaði við lýsingar björgunarmannanna sem fundu stúlkuna á Flateyri. Þetta rímar mikið við það sem ég lenti í og margir þeirra sem eru í björgunarsveitinni Sæbjörgu í dag eru vinir mínir. Því fann maður til mikillar tengingar við þessa atburði.“

Unglingsstúlkan sem Sóley vísar til varð undir flóðinu að heimili sínu í Ólafstúni en hefur verið útskrifuð og læknar segja hana væntanlega munu ná sér að fullu.

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -