Viðar Örn Kjartansson spilar með KA í sumar. Félagið greindi frá stórfréttunum á samfélagsmiðlum í morgun.
Framherjinn Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er búinn að semja við KA um að leika með liðinu á komandi sumri. Viðar, 34 ára er Selfyssingur en hefur leikið ansi víða um heim á ferlinum og verið ansi duglegur við markaskorun. Eftir rúma viku hefst Besta deildin og því spennandi að sjá hvort Viðar Örn haldi ekki uppteknum hætti.
Síðast lék Viðar með íslensku liði sumarið 2013 en það var með Fylki. Viðar hefur spilað 32 leik með A-landsliðinu og skorað í þeim fjögur mörk.
Þegar Viðar var 16 ára lék hann fyrsta leik sinn í meistaraflokki með uppeldisfélaginu, Selfossi, sumarið 2006. Þá lék hann einnig með ÍBV og Fylki og síðar með Vålerenga í Noregi, Jiangsu í Kína, Malmö og Hammarby í Svíþjóð, Maccabi Tel Aviv í Ísrael, Rostov og Rubin Kazan í Rússlandi, Yeni Malat í Tyrklandi, Atromitos í Grikklandi og síðast með liði CSKA 1948 í Búlgaríu.