Stefán S. Stefánsson hefur áhyggjur af yfirtöku gervigreindarinnar.
Skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar og höfundur slagaranna Fallinn og Diskó Friskó, Stefán S. Stefánsson skrifaði færslu á Facebook í morgun þar sem hann lýsir áhyggjum sínum vegna yfirtöku gervigreindarinnar, bæði í tónlist og á öðrum sviðum. Með færslunni birti hann ótrúlegt myndskeið sem sýnir gervigreindina notaða til að syngja lög en lokaniðurstaðan er hreint út sagt hrollvekjandi góð. Stefán segir að amerískir söngvarar séu farnir að sækja um einkaleyfi fyrir röddum sínum vegna þessarar yfirtöku gervigreindarinnar. Þá segir hann að fjöldi starfa muni „heyra sögunni til“ en að ný störf skapist á sama tíma. „Í mínum huga er þetta einangrunarstefna í listrænum skilningi. Það eru engir tónlistarmenn sem rífast um hvernig á að spila hitt og þetta, engir söngvarar til að koma með innlegg til að gera betur, enginn próduser til segja þér að þetta sé bara ekki nógu gott og segir þér að fara heim og laga þetta! Þetta eru allt atriði sem hafa gert tónlist betri í gegnum tíðina,“ segir Stefán meðal annars í færslunni.
Hér má lesa færsluna í heild sinni og sjá hið ótrúlega myndskeið:
„Manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds við að skruna gegnum þetta myndband. Söngvarar vestan hafs eru nú farnir að sækja um einkaleyfi á rödd sinni vegna yfirtöku gervigreindarinnar. Eins og venjulega er löggjafinn langt á eftir þegar kemur að tækninýjungum sem þessum. En það eru ekki bara tónlistarfólk sem er í hættu vegna gervigreindarinnar. Fjöldi starfa mun heyra sögunni til, en eins og alltaf verða til ný störf sem engan hefði órað fyrir. Í mínum huga er þetta einangrunarstefna í listrænum skilningi. Það eru engir tónlistarmenn sem rífast um hvernig á að spila hitt og þetta, engir söngvarar til að koma með innlegg til að gera betur, enginn próduser til segja þér að þetta sé bara ekki nógu gott og segir þér að fara heim og laga þetta! Þetta eru allt atriði sem hafa gert tónlist betri í gegnum tíðina. Er bara ekki best að loka hringnum og búa til gervigreindar-hlustendur? Og leyfa mér (og nokkrum öðrum…) að spila vinyl plöturnar okkar (þessum með partí-rispunum líka) í Internetlausum friði!? Gleðilega páska!“