Lík konu og karls fundust á Sólheimasandi í morgun, skammt frá göngustíg að flugvélarflaki þar. Þetta kemur fram á logregla.is. Um er að ræða erlenda ferðamenn sem voru að ferðast saman. Dánarorsök liggur ekki fyrir.
Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning kl. 11.55 í morgun að lík konu hefði fundist á Sólheimasandi. Lögreglumenn fóru á vettvang og kallað var á björgunarsveit. Um kl. 14 fannst lík karlmanns skammt frá þeim stað þar sem konan lá.
Bíll sem talinn er hafa verið leigður af parinu stendur á bílastæði við Sólheimasand og er vitað að hann fór um Hvolsvöll á austurleið kl. 14.55 hinn 13. janúar sl., segir í tilkynningu lögreglu.
Viðkomandi sendiráð hefur verið látið vita.