Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Ferðamálastofa gaf Farvel frest í 14 mánuði – viðskiptavinir íhuga að gera kröfu á stofnunina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ferðaskrifstofunni Farvel bar að skila hækkaðri tryggingu í lok október 2018 samkvæmt ákvörðun Ferðamálastofu en fékk ítrekaðan frest, allt þar til fyrirtækið var loks svipt starfsleyfi 18. desember 2019. Þá var hópur af Íslendingum erlendis á vegum Farvel án þess að ferðaskrifstofan hefði greitt fyrri hótelgistingu eða flug heim og fjöldi hafði greitt inn á ferðir í janúar 2020.

Hópur fólks sem var svikið af Farvel, 30 til 40 manns, ráða nú ráðum sínum í lokuðum afkima á Facebook en samkvæmt tilkynningu Ferðamálastofu um niðurfellingu leyfisins liggur fyrir að þar sem Farvel hafði ekki skilað inn hækkaðri tryggingu myndi tryggingafé ekki duga til að greiða áætlaðar kröfur. Það er undir hverjum og einum komið að freista þess að endurheimta útlagðan kostnað, hvort sem er frá Farvel eða kortafyrirtækjunum, en í Facebook hópnum er rætt að gera kröfu á Ferðamálastofu um það sem útaf stendur, þar sem stofnunin hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi.

„Þessi stofnun er búin að vita það í 14 mánuði að ferðaskrifstofan uppfyllir ekki skilyrði laga til að halda starfsleyfinu. Þetta eru dýrar ferðir og Ferðamálastofa veit að fólk er að leggja út mikla peninga í þeirri trú að eftirlitið virki. En þeir horfa á þetta gerast eins og meðvitundarlausir einstaklingar,“ segir Eiríkur Jónsson, sem var einn þeirra sem hafði greitt fyrir ferð með Farvel. Eiríkur hefur átt í samskiptum við Ferðamálastofu og óskað eftir upplýsingum. Einhver svör hafa borist en það vekur athygli að þau eru óundirrituð og aðeins merkt með kveðju frá starfsfólki stofnunarinnar.

Veittu fyrirtækinu ítrekað frest, í meira en ár

Í fyrirspurn Eiríks til Ferðamálastofu 19. desember sl. segir m.a. að ljóst sé af tölvupósti stofnunarinnar til viðskiptavina Farvel þar sem tilkynnt var um niðurfellingu leyfisins að starfsmönnum hennar hefði mátt vera ljóst að á meðan ferðaskrifstofan fékk ítrekað frest til þess að koma tryggingamálum sínum í lag væri fjöldi fólks að greiða hundruð þúsunda inn á reikning fyrirtækis sem ekki uppfyllti skilyrði laga til að stunda ferðaskrifstofurekstur. „Það má leiða líkur að því að með þessu hafi stofnunin ekki uppfyllt skyldur sínar varðandi upplýsingagjöf og með því stefnt fjármunum fjölda fólks í hættu,“ sagði Eiríkur.

- Auglýsing -

Svör Ferðamálastofu, sem bárust 10. janúar sl., voru á þá leið að jafnvel þótt stofnunin hefði heimild til að fella niður leyfi í tilvikum á borð við þetta, væri henni það ekki skylt. Ferðamálastofa þyrfti að gæta þess sérstaklega að ganga ekki lengra en nauðsyn bæri til og þar sem niðurfelling væri mjög íþyngjandi væri henni aðeins beitt þegar önnur úrræði væru að fullu tæmd. Slíkt ferli gæti tekið langan tíma.

Sú var enda raunin í tilviki Farvel. Samkvæmt svörum Ferðamálastofu var stofnunin ítrekað í samskiptum við Farvel og veitti forsvarsmönnum fyrirtækisins ítrekað frest.

Farvel átti að skila hækkaðri tryggingu í lok október 2018. Í nóvember sendi Ferðamálastofu fyrirtækinu ítrekun og veitti því frest til að skila inn gögnum til mánaðarloka. Innan frestsins skiluðu forsvarsmenn Farvel gögnum þar sem óskað var eftir endurskoðun á tryggingafjárhæðinni. Gögnin voru ófullnægjandi og var svarað með athugasemdum. Í janúar 2019 fékk Ferðamálastofa upplýsingar um að Farvel hefði leitað til umboðsmanns erlends tryggingafélags og fyrirtækið fékk í kjölfarið frest til febrúarloka til að skila inn hækkaðri tryggingu og ítarlegum gögnum.

- Auglýsing -

Í lok febrúar barst Ferðamálastofu beiðni frá lögmanni Farvel um frest til loka mars þar sem unnið væri að því að útvega bankaábyrgð. Ferðamálastofa hafnaði því en veitti fyrirtækinu „svigrúm“ til að klára að ganga frá tryggingunni gegn framlagningu staðfestingar frá banka um að unnið væri að málinu. Farvel var í mars send ítrekun en brást við með því að senda fyrirspurn um hvernig fyrirtækið ætti að snúa sér í því að fá leyfið niðurfellt. Upplýsingar voru veittar en engin slík beiðni barst Ferðamálastofu.

„Ekkert á þessum tímapunkti gaf til kynna annað en að Farvel ehf. væri að standa við gerða pakkaferðasamninga og taldi Ferðamálaskrifstofa ekki tilefni til að fella leyfið niður“

Í apríl fékk stofnunin þau svör að Farvel ætti í samningaviðræðum við aðra ferðaskrifstofu um að taka reksturinn yfir og í maí að samningar væru á lokametrunum. Í stuttu máli barst síðan staðfesting frá umræddri ferðaskrifstofu í júní að umræddir samningar væru í höfn og var þá veittur frestur til að skila inn nýjum gögnum til að endurútreikna tryggingafjárhæð sameinaðs fyrirtækis en í ágúst bárust þær fregnir að hætt hefði verið við sameininguna. Farvel óskaði í kjölfarið eftir frest til að athuga með tryggingu hjá skandinavísku tryggingafélagi, sem var veittur.

„Ekkert á þessum tímapunkti gaf til kynna annað en að Farvel ehf. væri að standa við gerða pakkaferðasamninga og taldi Ferðamálaskrifstofa ekki tilefni til að fella leyfið niður,“ segir í svari stofnunarinnar til Eiríks en ljóst er að Farvel hafði á þessum tíma ekki uppfyllt skilyrði laga í marga mánuði.

Hagsmunir lögbrjótsins settir framar hagsmunum neytenda

Ferðamálastofa sendi enn ítrekun í september en þá stöðvaðist eftirfylgni með málinu vegna annríkis í kjölfar rekstrarstöðvunar Gaman ehf. Málið var tekið upp að nýju í byrjun nóvember. „Eftirlit Ferðamálastofu leiddi í ljós að Farvel ehf. hafði aukið umsvif sín og auglýsti nýjar og dýrar ferðir á nýju ári. Ferðamálastofa reyndi ítrekað að ná í forsvarsmann Farvel ehf. til að fara yfir stöðuna en hann lét ekki ná í sig. Á þeim tímapunkti rann upp fyrir Ferðamálstofu að rekstrarhæfni fyrirtækisins væri mögulega brostin og í kjölfarið var Ferðamálastofu þá nauðugur einn kostur að nýta heimildarákvæði stofnunarinnar og fella niður leyfi Farvel ehf. áður en umsvifin myndu aukast frekar,“ segir í svarinu til Eiríks.

Farvel var tilkynnt 29. nóvember að starfsleyfi fyrirtækisins yrði fellt niður 16. desember ef umbeðin gögn bærust ekki Ferðamálastofu. Engin svör bárust og þá náðist ekki í forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar þegar óskað var upplýsinga um viðskiptavini sem voru í ferðum eða áttu pantaðar ferðir. Leyfið var loks, eins og fyrr segir, fellt niður 18 desember. „Eftir ítrekanir bárust umbeðnar ferða- og farþegaupplýsingar í lok dags 19. september. Þá fyrst varð Ferðamálastofu ljóst hversu slæm staðan var.“

Eiríkur segir þessa afgreiðslu málsins með ólíkindum.

„Það er greinilegt að ferðaskrifstofan ætlaði aldrei að [ganga frá tryggingunni]. Þeir nota tímann þarna og hringja í fólk til að minna á að það sé komið að lokagjalddaga. Það er kannski alvarlegast,“ segir Eiríkur en Ferðamálastofa staðfestir í svörum sínum að Farvel hafi sent fólk í ferð þrátt fyrir að hafa vitað að til stæði að fella niður leyfið og vitandi það að ekki var búið að greiða fyrir hótelgistingu eða heimflug. Þá hafi Ferðamálastofa fengið vitneskju um að forsvarsmenn Farvel hefðu haft samband við einhverja viðskiptavini og óskað eftir því að þeir gengju frá greiðslu jafnvel þótt að þeir hefðu vitað „að þjónustan sem verið var að greiða fyrir yrði ekki framkvæmd samkvæmt samningi.“

„Þeir hafa bara látið fara með sig eins og apa“

Ferðamálastofa hefur sagt að til skoðunar sé að tilkynna málið til lögreglu. Eiríkur segir undarlegt að það hafi ekki þegar verið gert. „Þetta er náttúrlega bara glæpastarfsemi,“ segir hann. Hann er hins vegar ekki síður harðorður í garð Ferðamálastofu. „Farvel hefur verið að fókusa á dýrar vetrarferðir. Af hverju leyfðu þeir þeim að auglýsa vetrarferðirnar og taka fé af fólki?“ spyr hann.

Eiríkur segist einnig spyrja sig að því hvaða hagsmuni sé verið að verja, þegar aðilum á borð við Farvel sé ítrekað veittur frestur þrátt fyrir að þeir fari ekki að lögum. „Það vissu allir sem voru að kaupa ferðir með WOW air að þeir væru að hætta fé. En í þessu tilfelli hefur ekki komið hóst eða stuna um að þarna sé eitthvað í gangi,“ segir hann. „Það er svo skrýtið að verja viðskiptahagsmuni þeirra sem eru að brjóta lögin og koma í veg fyrir að viðskiptavinir fái upplýsingar.“ Fólk hafi tapað allt að 2 milljónum á viðskiptum sínum við Farvel.

Þess ber að geta að þrátt fyrir að leyfi Farvel hafi verið fellt niður hefur fyrirtækið ekki verið lýst gjaldþrota. Forsvarsmenn þess hafa ekki tjáð sig um málið né liggur neitt fyrir um hvert sá peningur fór sem var innheimtur af viðskiptavinum allt þar til upplýst var að fleiri ferðir yrðu ekki farnar á vegum ferðaskrifstofunnar

Veistu meira? Hafðu samband við okkur á ritstjó[email protected].

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -