Útvarpsþátturinn Tvíhöfði er farinn í pásu.
Vegna forsetaframboðs annars hausanna í Tvíhöfða, hafa þeir félagar, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson ákveðið að setja útvarpsþátt sinn Tvíhöfða á salt í bili en hann hefur að undanförnu verið á X-inu á föstudögum, við fádæma vinsældir. Í stað Tvíhöfða verður Sigurjón með rokkþátt ásamt Aðalbirni Tryggvasyni. Tilkynning þess efnis birtist rétt í þessu frá Tvíhöfða. Hér fyrir neðan má lesa þá tilkynningu:
„Ástkæra hlustönd! Útaf dottlu ætlar Tvíhöfðinn þinn að taka sér leyfi frá X-inu um pínu óákveðinn tíma – allavega fram á sumar… kannski lengur…! Það verður því enginn Tvíhöfði á morgun en í staðinn hefur göngu sína á Xinu rokkþátturinn Djúpið með þeim Aðalbirni Tryggvasyni og Sigurjóni Kjartanssyni. Tvíhöfði elskar allar endur sínar og þakkar fyrir sig í bili.“