- Auglýsing -
Jódís Skúladóttir mærir Katrínu Jakobsdóttur í nýrri Facebook-færslu og vill hana í embætti forseta Íslands.
Fellbæski þingmaðurinn Jódís Skúladóttir ætlar að kjósa Katrínu Jakobsdóttur í forsetakosningunum sem framundan eru. Það er kannski ekki skrítið þar sem þær hafa setið saman á þingi undir merkjum VG þetta kjörtímabilið og eru vinkonur. Í færslunni rifjar hún upp tvær eftirminnileg augnablik sem hún hefur átt með Katrínu:
„Minn forseti!
Það hafa verið forréttindi að fá að starfa með Katrínu Jakobsdóttur! Sterkasti stjórnmálaleiðtogi sem við höfum átt á Íslandi og hefur leitt þjóðina gegnum súrt og sætt um árabil.
Katrín hefur kennt mér svo ótal margt. Við höfum tekist á, við höfum hlegið dátt og lent í ótrúlegum svaðilförum saman. Eftirminnileg móment eru þegar við keyrðum tvær í brjáluðu veðri frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Kata sá um tónlistina og við sungum saman mjög skrítna slagara. Svo man ég þegar við vorum staddar í sauðburði, ég var á kamerunni meðan Katrín dróg út lamb og við fórum báðar að skæla.“
Þá segir Jódís að Katrín sé að taka rétta ákvörðun og að hún sé viss um að VG muni nýta tækifærin vel sem birtast vegna breytinganna:
„En þó að það sé sjónarsviptir af Katrínu úr stjórnmálunum þá held ég að hún sé að taka rétta ákvörðun. Hún á allan minn stuðning á nýjum vettvangi og mun verða sameiningartákn og boðberi friðar og réttlætis sem forseti Íslands.
Í breytingum birtast tækifæri og ég er viss um að við í VG munum nýta þau vel. Mannauður VG er mikill, grasrót, ungliðar, eldri félagar, stjórn og þingflokkur. Allt er þetta frábært og frambærilegt fólk sem vinnur að stefnu okkar frábæru hreyfingar.“