Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir vill kíkja í heimsókn til landsmanna.
Forsetaframbjóðandinn og leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segist í nýrri Facebook-færslu langa að koma í heimsókn, nú þegar kosningabaráttan byrjar. „Elsku vinir, mig langar að koma í heimsókn! Nú fer í hönd kosningabarátta sem ég dembi mér út í af mikilli tilhlökkun. Mig langar að hafa minn háttinn á og heimsækja sveitir og bæi til að ræða við heimafólk. Þetta vil ég á þessum tímapunkti frekar gera en mæta með tilbúna söluræðu um sjálfa mig sem vænlegt forsetaefni, kaffi og kleinur, gegn hugsanlegum atkvæðum.“
Steinunn segist á næstu dögum vilja heimsækja fólk sem býr á Reykjarnesinu og auglýsir eftir heimboði. „Á morgun, mánudag og þriðjudag hafa góðir vinir boðist til að skutla mér (ég hef aldrei tekið bílpróf) til nágrannasveitarfélaga og því spyr ég: Mig langar að hitta fólk sem býr í Grindavíkurkaupstað, Suðurnesjabæ, Reykjanesbæ og Vogum sem þekkir vel til síns samfélags og nennir að fá mig í heimsókn og spjalla yfir kaffibolla. Er einhver til í það?“
Segist hún í framhaldinu svo vilja heimsækja staði um land allt.
Bestu kveðjur og deilið endilega. Mér er mikil hjálp í því!“