Hermína Gunnarsdóttir var gífurlega ósátt með vinnubrögð skattstjóra árið 1996.
„Ég get ekki séð annað en þetta sé herferð skattsins gegn kvenfélögum. Það er erfitt að túlka þetta með öðrum hætti. Þá er hætt við því að áhugi fyrir því að vinna að góðgerðarstörfum minnki við þetta. Maður spyr sig hvort um sé að ræða átak gegn kvenfélögunum í landinu eða hvort um sé að ræða aðeins einstök félög. Okkur er þetta alveg óskiljanlegt,“ segir Hermína Gunnarsdóttir, formaður Kvenfélagsins Bjarkar á Hvammstanga, í samtali við DV árið 1996 um málið. „Hér eru íslenskar gæsalappir“
Forsaga málsins var sú að kvenfélagið fékk bréf frá skattstjóra þar sem gerð var krafa á að félagið greini frá starfi sínu og virðisaukaskatti. Í bréfinu var félaginu gefinn kostur á að skýra mál sitt innan fárra daga eða sæta viðurlögum. Hermína sagði við DV að félagið haldi kökubasara, skemmtanir og selji bækur með eigin uppskriftum og að bréf skattstjóra hafi ekki verið vinsælt innan félagsins.
„Þetta leggst illa í félagsmenn. Öll þessi vinna sem að baki er og unnin er í annarra þágu. Starfsemi okkar er eingöngu hugsuð sem góðgerðarstarfsemi. Eins og önnur kvenfélög sem ég þekki til byggir starfið á því að líkna þeim sem erfitt eiga og vinna að verkefnum sem koma samfélagi okkar til góða. Það er fráleitt að hér sé um gróðastarfsemi að ræða. Oft á tíðum lætur maður heimilið og börnin sitja á hakanum en þá fer maður að hugsa að rétt væri að hætta þessu. Þá kemur upp í hugann að maður sé þó að láta gott af sér leiða og heldur áfram. Þetta er gífurleg vinna sem lendir á félagsmönnum og oft lítið upp úr þessu að hafa. Það veldur mér miklum áhyggjum að það muni koma niður á félagsstarfinu ef farið verður að skattleggja þetta. Fólk muni ekki nenna að standa í þessu,“ sagði Hermína.
Hún tók fram að félagið styrki ýmiss konar fólk sem eigi um sárt að binda og gefi börnum biblíur og hjálma. Þá hafi félagið styrkt byggingu kapellu á sjúkrahúsi.
„Við höfum gefið Krabbameinsfélaginu, Vímulausri æsku og ýmsum öðrum sem eru að vinna samfélagsleg störf. Það eina sem félagskonur veita sér á vegum félagsins eru námskeið sem við höldum fyrir okkur sjálfar. Að langmestu leyti fer því fjáröflun okkar til góðgerðarmála. Það er á hreinu að við getum ekki staðið undir því fjárhagslega að halda flókið bókhald. Þetta er hugsjónastarf sem ekki má við miklum truflunum,“ segir Hermína
Bogi Sigurbjörnsson, skattstjóri Norðurlands vestra, gaf lítið fyrir gagnrýni Hermínu í DV.
„Ég vil alfarið hafna því að verið sé að leggja kvenfélög sérstaklega í einelti. Okkar hlutverk er að fylgjast með hvers konar málum, þar á meðal því hvað hvers konar félög, hvort sem það eru ungmennafélög, íþróttafélög eða önnur félög, eru að gera. Að baki liggja m.a. samkeppnissjónarmið. Ef við fylgdumst ekki með þessum málum þá stæðum við okkur einfaldlega ekki í starfi.“