Fimmtudagur 12. desember, 2024
5 C
Reykjavik

Gæskur/Gæskan

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er Austfirðingur í húð og hár. Það er að segja í móðurætt, en föðurættin er dreifðari. En mestan part ævinnar hef ég búið á Austurlandi og er stoltur af fjórðungnum mínum, þótt ég hafi flutt þaðan í borgina fyrir þó nokkrum árum. Þar á ég enn systkini, móður og fjölda ættingja og vina. Allt sem austfirskt er þykir mér vænt um, flámælskuna, sem því miður er allt að því útdauð, hógværðina (séu Borgfirðingar teknir út fyrir svigann), veðrið, fólkið Austfjarðaþokuna og orð eins og gæskur og gæskan.

Ég tala við mömmu mína nokkrum sinnum í viku, en hún býr í Fellabæ fyrir austan en er Eskfirðingur í grunninn. Hún kveður mig alltaf með orðinu gæskur: „Við heyrumst, gæskur“. Það þykir mér afar vænt um. Þegar ég kom heim í sumarfrí þegar Covid-faraldurinn var í rénun og fór í sund á Egilsstöðum blasti við mér afar austfirsk sjón. Á gólfinu við afgreiðsluna og við heita pottana stóð innan í hjarta: „Tveir metrar gæskur“ og „Tveir metrar gæskan“. Þá fannst mér ég virkilega vera kominn heim. Þegar ég skrifa afmæliskveðjur á Facebook skrifa ég alltaf gæskur eða gæskan, ef ég þekki afmælisbarnið vel. Mér finnst orðið svo hlýlegt. En það eru ekki allir sammála því.

Á dögunum benti ég lesanda Mannlífs, sem hneykslaðist í athugasemdum á frétt, en greinilegt var að lesandinn hafði ekki lesið meira en fyrirsögnina. Ég benti lesandanum kurteisislega á að lesa fréttina: „Lestu fréttina, gæskan“. Reykvískur vinnufélagi minn sagðist hafa verið nálægt því að hringja í mig þegar hann sá þessi orð mín því honum þótti þau svo dónaleg. Það kom á mig fát, enda var ekki ætlun mín að tala niður til konunnar, þvert á móti. Eftir að ég gerði hávísindalega skoðanakönnun á Facebook, komst ég að því, mér til undrunar, að talsverður fjöldi fólks telur það geta verið niðrandi að kalla fólk gæskur eða gæskan. Af þeim 137 Facebook-vinum mínum sem tóku þátt í könnuninni voru 22 sem töldu að orðin gætu verið niðrandi, 111 töldu svo ekki vera og fjórum var drullusama. Þau sem fannst orðið geta verið niðrandi voru langflest ekki frá Austurlandi og oftar en ekki frá Reykjavík og hin flest að austan.

Í raun er hægt að nota hvaða orð á niðurlægjandi hátt, það fer eftir blæbrigðum í röddinni, aðstæðum og fleiru, en það er algjör óþarfi fyrir Reykvíkinga að vera hræddir við orðin gæskur og gæskan. Orðin eru falleg og með hlýja merkingu, en slái maður inn orðinu gæska á orðanetsíðu Árnastofnunar koma upp orð eins og góðmennska, blíða, ástúð og bróðurþel svo eitthvað sé nefnt. Segi ég því við þig lesandi góður, hafðu það gott gæskur/gæskan.

Pistill þessi birtist í nýju Sjóarablaði sem hægt er að lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -