Lögreglumaður sem mætti á vettvang eftir banvænu hnífaárásina í Westfield-verslunarmiðstöðinn í Sidney, Ástralíu, uppgötvaði sér til skelfingar að unnusta hans var meðal sex fórnarlambanna sem létu lífið í árásinni.
Ashley Wildey komst að því að æskuástin hans, hin 25 ára Dawn Singleton, hafi orðið fyrir hnífaárás Joel Cauchi, sem gekk bersersksgang á laugardaginn í Westfield-verslunarmiðstöðinni, þegar hann mætti á vettvang eftir að lögreglan hafði verið kölluð til. Singleton lést af sárum sínum.
„Ashley var kominn til Westfield þegar yfirmenn áttuðu sig á því að unnusta hans var meðal fórnarlambanna,“ sagði heimildarmaður Mirror í gærkvöldi. Dawn, dóttir ríks auglýsingamógúls, var lýst sem „ótrúlega frábærri“.
Dawn hafði þegar keypt brúðarkjólinn sinn og hafði sent frá sér brúðkaupsboðskort. Hún var ein af þremur dætrum og átta börnum þekkts ástralsks frumkvöðuls að nafni John Singleton, 82 ára.
Ashley var nýbúinn að klára vakt sína þegar honum var sendur með samstarfsmönnum sínum í Westfield-verslunarmiðstöðina í Bondi Junction í Sydney klukkan 15:30 að staðartíma. Cauchi, fertugur, hafði þá farið í æðiskasti um verslunarmiðstöðina með hníf og myrt fimm konur og karlkyns öryggisvörð. Fjölmiðlar í Ástralíu hafa sagt frá því að Cauchi hafi beint árásum sínum sérstaklega að kvenmönnum.
Árásina hóf hann með því að stinga þriggja mánaða stúlku og hélt áfram árásum sínum þar til lögreglukonan Amy Scott skaut hann til bana er hann hljóp í átt að henni.
Móðir barnsins, Osteópatinn Dr. Ashlee Good, henti dóttur sinni, Harriet, til vegfarenda til að bjarga henni, rétt áður en hún var síðan stungin. Læknirinn lést á sjúkrahúsi klukkustundum síðar. Harriet er sögð vera að jafna sig á sjúkrahúsi.
Fjölskylda Dr. Good sagði í yfirlýsingu: „Í dag þjáumst við vegna hins hræðilega missis á Ashlee, fallegrar móður, dóttur, systur, félaga, vinkonu, allsherjar framúrskarandi manneskju og svo margt fleira. Við kunnum að meta kveðjur ástralsks almennings sem hefur lýst yfir ást til Ashlee og litlu stúlkunnar okkar. Við getum greint frá því að eftir klukkutíma skurðaðgerð í gær gengur barninu okkar vel. Við erum svo þakklát fyrir umönnun sérfræðinga og læknateymisins á Sydney Children’s Hospital. Fyrir mennina tvo sem héldu á og önnuðust barnið okkar þegar Ashlee gat það ekki – geta orð ekki tjáð þakklæti okkar.“
Hin fimm sem Cauchi myrti, létust á vettvangi. Þau voru hin 55 ára listakona Pikria Darchia, upphaflega frá Tbilisi í Georgíu, hinn 47 ára arkitekt frá Sydney, Jade Young, öryggisvörðurinn Faraz Tahir, fæddur í Pakistan en hafði flutt til Ástralíu fyrir ári síðan og var á fyrstu vakt sinni í Westfield-verslunarmiðstöðinni og hin 27 ára Yixuan Chen frá Kína. Hún er sögð hafa komið til Ástralíu til að læra hagfræði við háskólann í Sydney. Auk hinna látnu slösuðust einnig átta konur og tveir karlmenn en þau voru flutt á sjúkrahús. Sum þeirra eru sögð vera í lífshættu.
Öryggisvörðurinn Faraz Tahir hefur verið hylltur sem hetja eftir að hafa verið stunginn til bana í árásinni. Samkvæmt áströlskum fjölmiðlum var hann á fertugsaldri. Samfélag Pakistana í Ástralíu sendu frá sér yfirlýstgu þar sem stóð: „Við skulum sýna samstöðu og bjóða þeim stuðning og bænir sem syrgja eftir þennan hræðilega missi.“
Fréttin er unnin upp úr frétt Mirror.