Bæjarstjórinn í Ölfusi er þeirrar skoðunar að formaður Miðflokksins verði með í næstu ríkisstjórn.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, komi til með að verða í næstu ríkisstjórn Íslands.
Þessu lýsir Elliði yfir á Facebook-síðu sinni þar sem heilmiklar ummræður hafa skapast um Kryddsíldina sem sýnd var á Stöð 2 á gamlársdag og hvaða stjórnmálaleiðtogar hafi staðið sig best í þættinum. Sjálfur er Elliði þeirrar skoðunar að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi komið þar best út, en þegar á það er bent að Sigmundur Davíð hafi einnig komið vel út tekur Elliði undir þau orð. „Sammála, hann kemur inn í næstu ríkisstjórn,“ ritar hann í athugasemd við eigin færslu.
Þess má geta að Miðflokkurinn mældist með 12,7% fylgi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem greint var frá á RÚV á dögunum og er því þriðji stærsti flokkur á Alþingi. Með hliðsjón af niðurstöðu Þjóðarpúlsins héldi núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokki ekki velli ef nú yrði gengið til kosninga, en þingkosningar fara fram á næsta ári.