Söngvarinn sívinsæli fær að halda árlegt áramótaball á Spot í Kópavogi eftir að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu endurnýjaði vínveitingaleyfi staðarins.
„Áramótaballið mitt er on. Nú verður stillt upp hljóðkerfi og ljósum og Palla-skreytingum það sem eftir lifir dags. Þeir sem vilja fagna nýjum áratug með mér eru hjartanlega velkomnir,“ segir Páll Óskar feginn í samtali við Mannlíf, en eins og kunnugt er var óvíst að yrði af fyrirhuguðu Palla-balli á Spot í Kópavogi, þar sem staðnum var lokað 28. desember vegna útrunnins vínveitingaleyfis. DV greindi frá því að um það bil hundrað manns hafi verið í einkasamkvæmi þegar staðnum var lokað og var fólkinu hent út.
Páll Óskar segist ekki vera ánægður með framgöngu Árna Björnssonar, eiganda Spot, í málinu en hann hafði árangurslaust reynt að ná tali af Árna fyrr í vikunni. Var því óljóst hvort af ballinu yrði og hvort endurgreiða þyrfti öllum sem höfðu keypt miða á ballið.
„Árni á Spot á engar þakkir skildar fyrir sína eigin handvömm,“ segir Páll Óskar. „Aftur á móti sendi ég kærar kveðjur til sýslumannsins í Kópavogi. Takk fyrir að bjarga ballinu. Gleðilegt ár,“ bætir hann við og getur þess að miðasalan standi enn yfir á www.midi.is.