Alda Ægisdóttir (24) myndlistar- og kvikmyndagerðakona vann til verðlauna í ár á Stockfish stuttmyndakeppninni, og er það annað árið í röð sem hún vinnur til verðlaunanna.
Hin unga listakona er með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands en með verkum sínum skapar hún litríka ævintýraveröld úr efnum eins og textíl, leir, pappamassa, vír og fleiru. „Árið 2022, á fyrsta árinu mínu í Listaháskólanum, fór ég að nota „stop-motion“-miðilinn til að lífga við veröld skúlptúra minna,“ segir Alda í samtali við Mannlíf og bætir við að hún hafi nú búið til tvær stuttmyndir með „stop motion“ tækninni. Það eru myndirnar Sagan af bláu stúlkunni og Sálufélagar en þær hlutu báðar titilinn Tilraunaverk ársins á Sprettfiskinum, stuttmyndakeppni Stockfish, sú fyrr árið 2023 og hin seinni árið 2024.
Dómnefnd Sprettfisksins segir um Sálufélaga, sem vann í ár:
„Sálufélagar dró okkur inn í heim sem að okkur fannst bæði frumstæður og undarlega kunnuglegur. Við vorum umvafin dásamlegu sjónarspili lita og „lífrænna“ formgerða, heilluð af verunum sem að við hittum fyrir og gáttuð á nánum samskiptum lífsformanna.
Við mættum okkar eigin tilfinningum varðandi sálufélaga, bæði fornum og samtímalegu konsepti og okkur fannst skapandinn framkvæma það sem við ætlumst til af tilrauna-fólki okkar og ná að fullgera eitthvað á brún hengiflugsins.“
Aðspurð segist Alda vera að springa úr gleði.
„Ég er alveg að springa úr gleði og er rosalega þakklát Stockfish fyrir að búa til þennan vettvang fyrir óhefðbundnar kvikmyndir og upprennandi listafólk.“
En hvað þýða þessi verðlaun fyrir þig?
„Þessi verðlaun eru búin að gefa mér mikið sjálfstraust sem kvikmyndagerðakona, en draumurinn minn fyrir næsta verkefni er að búa til stop-motion kvikmynd í fulllri lengd.“
Það er mikill heiður að hafa fengið þessa viðurkenningu núna tvö ár í röð, sérstaklega sem ung listakona sem er enn í námi. Ef þið hjá DV mynduð veita mér einhvers konar umfjöllun yrði ég afar þakklát! Í viðhengi eru myndir af verðlaunagripunum, úr stuttmyndinni Sálufélagar og af mér og Snæfríði Sól Gunnarsdóttur (sem vann verðlaunin fyrir besta tónlistarmyndband) á verðlaunaafhendingu Stockfish sem var sameinnuð Eddunni í ár.