Undanfarna viku hefur átt sér stað mikil og hörð umræða í Laugardalnum um tillögu stjórnar Þróttar um að félagið taki upp nýtt merki en núverandi merki Þróttar hefur staðið óhaggað síðan 1980. Nýja merkið, sem er teiknað af hönnunarstofunni Farvi, þykir frekar ólíkt gamla merkinu en rauðar og hvítar rendur félagsins eru horfnar á braut í merkinu sem og svört umgjörð og stafir.
Á aukaaðalfundi í kvöld tilkynnti Bjarnólfur Lárusson, formaður aðalstjórnar og fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, að kosningu á merkinu yrði frestað í ljósi þess hversu illa var staðið að kynningu á merkinu og fundinum og klöppuðu allir 50 gestir fundarins þeim fregnum. Kosning mun fara fram 21. maí á aðalfundi félagsins.
Þar á eftir héldu hönnuðir nýja merkisins ræðu þar sem merkið var útskýrt fyrir gestum. Þegar því var lokið fengu stuðningsmenn Þróttar orðið og ríkti mikil sátt með áðurnefnda frestun en nokkrir ræðumenn gagnrýndu nýja merkið harðlega og voru stór og sterk orð notuð. Heimildir Mannlífs herma að nýja merkið hefði líklega kolfallið í kosningu.
Hins vegar var kosið um að lið Þróttar hætti að keppa í hvítum stuttbuxum en kvennalið félagsins hafa um árabil óskað eftir því að hætt verði að notast við þær. Var sú tillaga einróma samþykkt.