Halla Tómasdóttir er rómantísk í eðli sínu og líður best í heitu pottunum eða út i í guðs grænni náttúrunni. Þá hefur hún fjölbreyttan tónlistarsmekk og hlustar jafnt á Villa Vill og Unu Torfa. Mamma hennar er helsa fyrirmyndin í lífinu, neikvæðni fer í taugarnar á henni og hún skýrði son sinn í höfðuðið á Bjarti í Sumarhúsum.
Hér má sjá svör forsetaframbjóðandans, Höllu Tómasdóttur sem Mannlíf lagði fyrir hana:
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
Náttúra og sundlaugar landsins. Líður hvergi betur en í góðu spjalli út í náttúrunni eða í heitu pottunum. Finnst hvergi betra að hugleiða en í gufunni eða á göngu við sjóinn.
Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?
Ég tel nauðsynlegt að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar um embætti forseta Íslands. Þar á meðal því hvað lengi forseti má sitja í embætti. Ég held að lýðræðinu sé ekki hollt að forseti sitji lengur en í 3 kjörtímabil.
Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?
Þetta er stór spurning og ekki hægt að svara henni í stuttu máli – svo mitt svar á þessu stigi er að ég vil skerpa skilin í þrískiptingu valdsins, þannig að löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald séu í raun aðskilin.
Hver er þinn uppáhaldsforseti?
Ég var lítil stelpa þegar Vigdís varð forseti Íslands. Kjör hennar hafði gríðarleg áhrif ekki aðeins á jafnrétti, heldur á þá málaflokka sem hún lagði höfuðáherslu á. Land, þjóð og tunga – mannhelgi, náttúruvernd, saga og menning. Vigdís hefur verið dýrmæt fyrirmynd og haldið fallega utan um okkur í gleði og sorg.
Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?
Mér finnst eðlilegt að fjöldi meðmælenda endurspegli fjölda kjósenda. Núverandi fjöldi var ákveðinn fyrir miðja síðustu öld, þegar mannfjöldi og aðstæður voru önnur en í dag. Mér finnst líka þurfa að ræða hvort forsetakosningar ættu að vera tvískiptar þannig að kosið yrði milli efstu frambjóðenda í seinni umferð til að tryggja að forseti njóti stuðnings meirihluta kjósenda.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?
Mamma. Hún hefur svo stórt hjarta og er baráttukona og berst fyrir þeim sem mest þurfa á því að halda. Hún var með fyrstu þroskaþjálfum á Íslandi og sannkallaður frumkvöðull í málefnum fatlaðra.
Hver er uppáhaldstónlist þín?
Ég hlusta á alls kyns tónlist – allt eftir aðstæðum og ég á erfitt með að gera upp á milli. En ég get sagt að íslensk tónlist sé í uppáhaldi. Ég elska ýmislegt gamalt og gott eins og Villa Vill og Ellý. Lagið Vetrarsól á sérstakan sess í mínu hjarta. Valdimar og Sigga Toll eru í miklu uppáhaldi, sérstaklega lagið Líttu sérhvert sólarlag. Til viðbótar get ég nefnt GDRN, Unu Torfa og FLOTT. Við eigum svo margt frábært tónlistarfólk og mér finnst erfitt og í raun óþarft að gera upp á milli.
Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?
Ég hef aldrei brotið lög með neyslu efna.
Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?
Mér finnst Ólafur Ragnar hafa nýtt málskotsréttinn vel í tilfelli icesave. Það hefði ekki verið réttlátt að láta næstu kynslóðir sitja uppi með skuldabagga vegna óábyrgrar áhættusækni okkar kynslóðar.
Hver var stærsta stundin í lífi þínu?
Að verða móðir, sem ég hef fengið að njóta tvisvar sinnum. En mér er líka ógleymanlegur Þjóðfundurinn 2009, þegar fimmtán hundruð manns komu saman til að ræða sameiginleg gildi og framtíðarsýn.
Hver eru mestu vonbrigðin?
Ég er lítið fyrir eftirsjá og vel að draga lærdóm af allri lífsreynslu. Ég á því erfitt með að velja einhver ein vonbrigði því allt sem gerst hefur í mínu lífi hefur eflt mig, þótt margt hafi verið erfitt. Það veldur mér helst vonbrigðum að verða vitni að neikvæðni og þröngsýni. Við verðum að nýta krafta okkar til góðs – fyrir hvert annað og ekki síst fyrir næstu kynslóðir. Við verðum að taka tillit til þeirra – ég þekki engan sem ekki vill það besta fyrir börnin sín og barnabörn, en það er ekki nóg að vilja það besta, það þarf að vinna að því besta fyrir framtíðina.
Fallegasta ljóðið?
Þau eru svo mörg. Fyrst upp í hugann kemur ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur um hamingjuna:
Á hverjum morgni
vakna ég við hlið þér
og hugsa:
þarna er hún lifandi komin,
hamingjan.
Ég fékk listakonu til að mála þessar ljóðlínur í málverk sem ég gaf manninum mínum í morgungjöf fyrir 25 árum. Ljóðið segir mér það sama nú og það gerði þá.
Besta skáldsagan?
Það er engin ein “best.” Sjálfstætt fólk hafði svo mikil áhrif á mig að sonur okkar var skírður Tómas Bjartur. Bjartur í Sumarhúsum sendir okkur sterk skilaboð um að við erum öll hvert öðru háð. Það stendur enginn einn.
Hvað er það besta við Ísland?
Landið, víðáttan, tungumálið, menningin, samheldnin sköpunarkrafturinn og sundlaugarnar.
Kanntu á þvottavél?
Þvottavél? Hvað er það?
Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?
Að við tökum alvarlega samtalið og samstarfið um framtíðina – stillum okkar áttavita saman svo næstu kynslóða bíði betri heimur.
Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?
Að hjálpa okkur að vera samhent og skapandi þjóð..
Borðarðu þorramat?
Það geri ég. Elska svið, slátur, allan fjölbreytta innmatinn og undarlega kæstu fyrirbrigðin, og auðvitað harðfisk, rúgbrauð og flatkökur með hangikjöti, en játa að ég er minna fyrir súrmatinn.
Ertu rómantísk/ur?
Já, fyrir mér er rómantíkin ekki flókin. Góður matur, góð tónlist, kertaljós og einlægt samtal.
Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?
Vegna þess að ég vil leiða saman fólk, gefa því vettvang til að hlusta hvert á annað og skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig við getum þróað okkar samfélag þannig að framtíð barnanna okkar verði sem best. Þetta hef ég unnið við með góðum árangri undanfarin ár og ég veit að þetta getur forseti gert.
Senn rennur út frestur til að safna lágmarksfjölda meðmælenda, ætli maður sér að sækjast eftir því að verða forseti Íslands. Á áttunda tug manna hefur að undanförnu safnað meðmælum en nokkrir hafa nú þegar náð þeim áfanga og eru því gjaldgengir í framboð.
Mannlíf lagði spurningalista fyrir þeim frambjóðendur sem náð hafa lágmarksfjölda meðmæla, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör frambjóðendanna vera birt á næstu vikum.