Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir rifjar upp eftirmála þess er hún lét leiðrétt kyn sitt í Stokkhólmi 24. apríl árið 1995 en næstu ár á eftir reyndust henni erfið.
„Dagur 1716 – Merkisdagur.
Því næst útskýrir hún af hverju fyrstu árin voru erfið:
„Ég hafði gert mér vonir um að íslenska þjóðin væri orðin sæmilega upplýst um tilveru transfólks og því átti ég von á góðri móttöku er ég flytti til Íslands ári eftir aðgerðina mína, en það var öðru nær. Ef ekki hefði verið fyrir stuðning innsta vinahópsins hefði ég flust aftur til Svíþjóðar innan þriggja mánaða, en einhvernveginn tókst mér að þrauka af fyrstu mánuðina og síðan árin, kannski fyrst og fremst fyrir stuðning örfárra einstaklinga á borð við Jónínu Leósdóttur og síðan Emils Thorarensen þáverandi útgerðarstjóra hjá Alla ríka á Eskifirði og síðar Skúla Waldorffs starfsmannastjóra Hitaveitu Reykjavíkur er ég hóf þar störf haustið 1996 sem og fleiri aðila sem reyndust mér mjög vel.“
Segir hún að árin hafi svo liðið og áskoranir hafi mætt henni sem í dag yrðu flokkuð sem einelti og ofbeldi.
„Árið 2006, tíu árum eftir að ég flutti til Íslands, breyttist allt. Þá komu fleiri transmanneskjur fram í dagsljósið og þar með missti ég titilinn „The only Trans in the Village“ og við voru orðin hópur. Við höfðum vissulega verið það allan tímann, en þessi fyrstu tíu erfiðu ár var ég nánast ein um að þurfa að tjá mig opinberlega um málefni transfólks á Íslandi.“
Að lokum segist Anna vera löngu hætta að berjast og farin að njóta lífsins á sólarströnd.