Um helmingur gerenda sem leitar sér aðstoðar vegna heimilisofbeldis klárar meðferð. Úrræðið Heimilisfriður hét áður Karlar til ábyrgðar en í dag eru um 20% þeirra sem sækja þjónustuna konur. Um 85% gerenda eiga mikla áfallasögu að baki.
Um 1.100 til 1.200 manns hafa sótt þjónustu hjá Heimilisfriði, meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, eftir að úrræðið var stofnað árið 1998. Í þá daga hét það Karlar til ábyrgðar en því var breytt árið 2014, enda eru konur 20% þeirra sem nýta sér þjónustuna. Um er að ræða úrræði fyrir gerendur heimilisofbeldis, þá sem beita maka eða bæði maka og börn ofbeldi, og þrátt fyrir að hafa farið hægt af stað hefur aðsóknin vaxið gríðarlega síðustu ár.
„Forsagan er sú að um 85% þeirra sem koma til okkar eiga gríðarmikla áfallasögu og flestir þeirra, eða um 80%, voru sjálfir vitni að eða fórnarlömb ofbeldis sem börn. Og það þarf að byrja þar,“ segir Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur um það hvernig meðferðinni er háttað. „En í grunninn felst meðferðin í því að við þurfum að kenna fólki að gera eitthvað annað en að beita ofbeldi; gera hlutina á annan hátt, vinna þá á annan hátt, hugsa þá á annan hsátt. Þannig að við erum að vinna með atferli, hugsanir, gildismat og ráðast á mynstur sem eru ævilöng. Við erum í raun að endurforrita ansi margt og þarna sjáum við gjarnan að fólk er hjá okkur yfir langan tíma.“
Að sögn Andrésar, sem fer fyrir Heimilisfriði, detta um 20% þeirra sem leita sér aðstoðar út eftir einn til þrjá tíma. Um helmingur „klárar“ meðferðina á einu til þremur árum og það hefur raunar reynst erfitt að útskrifa fólk. „Við sjáum að fólkið vill ekki hætta,“ segir Andrés. „Þetta er hluti af öryggisnetinu: Á meðan ég kem hérna er allt í lagi. Þannig að við erum að velta ýmsu fyrir okkur í þessu; hvort við eigum að stofna sjálfshjálparhópa í kringum AA-kerfið … því við getum ekki sinnt þessu sjálf.“ Heimilisfriður er fjármagnað með framlögum frá félagsmálaráðuneytinu og þrátt fyrir að vilja getað gert meira segist Andrés finna fyrir miklum skilning og velvilja hjá stjórnvöldum.
„Margir sem koma til okkar, flestir jafnvel, gera lítið úr ofbeldinu; fela það og nota mjög veik lýsingarorð til að mínimalisera það.“
Afleiðingar ofbeldishegðunar karla og kvenna afar ólíkar
Þeir sem sækja aðstoð hjá Heimilisfriði gera það ýmist að eigin frumkvæði eða vegna þess að þeim hefur verið vísað þangað af yfirvöldum á borð við barnavernd. Að sögn Andrésar er það nú fast verklag hjá lögreglu að láta félagsmála- og barnaverndaryfirvöld vita þegar hún er kölluð á vettvang vegna heimilisofbeldis. Fyrstu tímarnir fara í klínískt mat og í framhaldinu er lögð áhersla á að gera ofbeldið „sýnilegt“. „Margir sem koma til okkar, flestir jafnvel, gera lítið úr ofbeldinu; fela það og nota mjög veik lýsingarorð til að mínimalisera það. Og við tökumst alltaf beint á við það til að komast í næsta kafla, sem snýst þá um að ég ber ábyrgð á minni hegðun og mínu ofbeldi og það er bara ég sem geri það. Einu sinni sagði einhver við mig: „Ég er búinn að vera hérna í þrjú ár og það eina sem þú hefur kennt mér er að það má ekki segja „en“,“ útskýrir Andrés. En, þannig sé það. „Ég geri þetta og það er ekkert „en“ á eftir því. Ég gerði þetta, ég ber ábyrgð á því. Punktur.“
En er eðlismunur á körlum og konum sem gerendum?
„Líkamlega ofbeldishegðunin sem við sjáum er ósköp álíka hjá körlum og konum,“ svarar Andrés. „Afleiðingar ofbeldishegðunar karla og kvenna hins vegar, sérstaklega af líkamlegu ofbeldi, eru ólíkar að því leiti að konur upplifa sig mjög oft í hættu og er gríðarlega ógnað þegar um er að ræða líkamlegt ofbeldi. Í krafti aflsmunar. Á meðan karlar sem eru þolendur, þeim finnst þetta oft frekar vandræðalegt; upplifa niðurlægingu eða lítillækkun en ekki þessa miklu ógn gegn lífi og limum. Í þessu felst mikill munur.“
Munur á upplifun gerenda og þolenda
Þegar einstaklingsmeðferðin er farin að bera árangur fer fólk að taka þátt í hóptímum. En hvaða breytingar eru það sem Andrés vill sjá áður en hann útskrifar fólk?
„Ég vil sjá alla ofbeldishegðun hætta. Það gerist ekki alltaf,“ svarar hann. Hann vísar hins vegar til úttektar sem gerð var á Heimilisfriði árið 2014, þar sem úrræðið kom mjög vel út. „Það kom í ljós að í langflestum tilvikum var líkamlegt ofbeldi hætt. Þannig að okkur tekst það býsna vel. Við vorum ekki eins flott varðandi andlegt ofbeldi og það á sér skýringar í því að bæði er það flóknara fyrirbrigði og það tekur lengri tíma að vinna með það. Það var nú ein af niðurstöðum þessarar rannsóknar, að við þyrftum að gefa fólki lengri tíma í meðferð.“
Það kom líka í ljós nokkur munur á milli upplifunar gerenda og þolenda. „Þetta var mjög skýrt þegar spurt var um kynferðislegt ofbeldi. Alls 2% gerenda sögðu frá kynferðislegu ofbeldi en þegar þú spurðir makana þá voru um 30% sem sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þetta kenndi okkur líka að við vorum allt of lítið vakandi yfir því og breyttum verklagi hjá okkur í kringum það,“ segir Andrés. Þá sögðust 22% gerenda hafa beitt andlegu ofbeldi eftir meðferðina en 50% þolenda verið beitt andlegu ofbeldi.
Báðir hópar voru þó nokkuð ánægðir með úrræðið og sögðu gerendur t.d. að meðferðin hefði hjálpað þeim að verða betri makar og feður.