Í upphafi ársins voru íbúar landsins 356.991, en landsmönnum fjölgaði um 2,5 % á milli ára, eða um 8.541 einstakling.
Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar um mannfjöldaþróun ársins 2018. Sveiflur í búsetuþróun hér á landi skýrast helst af búferlaflutningum til og frá landinu. Það ár fluttu 6.556 fleiri til landsins en frá því, eða alls 14.275 einstaklingar. Árið áður fluttu 8.240 til landsins umfram brottflutta, eða 14.929. Flestir þeirra sem fluttu frá Íslandi fóru til Póllands eða Danmerkur. Erlendir ríkisborgarar voru fleiri en íslenskir í hópi brottfluttra, eða 4.916 á móti 2.803.
Innflytjendum fjölgaði á milli ára
Í upphafi árs voru skráðir 50.272 innflytjendur hér á landi, 14,1% af heildarmannfjölda. Pólverjar eru langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi, 19.172 landsmanna eru upprunnir frá Póllandi, eða 38,1 % innflytjenda. Flestir innflytjanda búa á höfuðborgarsvæðinu eða 35.341 í upphafi árs.