Hjónin Pauline McCarthy og Tryggvi Sigfússon hafa undanfarin ár boðið einstæðingum að verja jólunum með sér á heimili sínu á Akranesi. Tryggvi verður erlendis þessi jólin en Pauline lætur það ekki stoppa sig og mun halda jólaveislu fyrir einstæðinga á aðfangadag með aðstoð sonar síns.
Pauline auglýsir veisluna á Facebook.
„Reiknar þú með að vera ein/nn um jólin. Þú þarft ekki að vera það,“ segir m.a. í auglýsingunni um jólaveisluna sem er hugsuð fyrir þá sem annars yrðu einir á jólunum. Pauline tekur fram að hún geti jafnvel boðið einhverjum upp á næturgistingu.
Tryggvi, eiginmaður Pauline, verður staddur í Búlgaríu þar sem hann er að byggja sumarhús. Pauline segir í samtali við Mannlíf að þetta verði fyrstu jólin sem hún og Tryggvi verða í sundur yfir jól síðan þau kynntust. „En ég verð með hann á Skype þannig að hann getur verið með okkur,“ segir Pauline.
„Við Tryggvi komum bæði úr stórum fjölskyldum…“
Áhugasamir geta sent Pauline skilaboð í gegnum Facebook hafi þeir áhuga á að verja aðfangadegi heima hjá henni. Hún tekur fram að það sé mikilvægt að fólk heyri í henni áður. „Ég elska að halda jólin svona. Við Tryggvi komum bæði úr stórum fjölskyldum þannig að við erum vön að halda stór jól.“