Stefán Pálsson tekur upp hanskann fyrir Viktori Traustasyni sem ætlar að kæra kjörstjórn fyrir að ógilda öll meðmæli hans nema 69.
Viktor Traustason var einn af þeim forsetaframbjóðendum sem skilaði lágmarksmeðmælum á dögunum til kjörstjórnar en hún ákvað að ógilda öll meðmælin nema 69. Ástæðan var sú að hann meðmælendurnir skrifuðu ekki lögheimili sitt á undirskriftina.
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson skrifaði Facebook-færslu í morgun þar sem hann segist hafa ákveðna samúð með Viktori og tekur í raun upp hanskann fyrir hann. Segir hann kröfu um að lögheimilið sé handskrifað af meðmælendum sé „órökrétt og íþyngjandi“.
Hér má lesa færslu Stefáns í heild sinni:
„Ég hef ákveðna samúð með þessum Viktori, að því gefnu að frásögn hans sé að öllu leyti rétt. Að mínu mati hefði kjörstjórn getað sent hann heim og skipað honum að slá upp lögheimili allra sem skrifað höfðu undir, skrá það á listana og skila þeim svo aftur. Það hlýtur að teljast fullnægjandi eiginhandarundirritun meðmælanda að skrifa nafnið sitt og kennitölu – það er órökrétt og íþyngjandi að gera kröfu um að lögheimilið sé handskrifað líka af meðmælandanum.“